c

Pistlar:

22. september 2014 kl. 9:20

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Valdamestar á sextugsaldri

Tímaritið Fortune birtir árlega lista yfir fimmtíu valdamestu konurnar í viðskiptalífi heimsins. Þarna er konum raðað upp eftir völdum en sú sem er í fyrsta sæti árið 2013 er Ginni Rometty forstjóri IBM, þá fimmtíu og sex ára. Það er ýmislegt áhugavert við þennan lista.

Meðalaldur þeirra kvenna sem eru á listanum árið 2013 er fimmtíu og þriggja ára en árið 1998 var hann fjörtíu og átta ára. Þetta er í samræmi við almenna þróun á vinnumarkaði.

Mörgum konum sem ég hef hitt finnst sem þær verði verðlausari á vinnumarkaði eftir fimmtugt en það þarf ekki að vera svo. Ef maður heldur áfram að vinna af elju og forvitni, byggja upp starfsferill sinn og leggja hart að sér eru þau ár oft gullin á vinnumarkaði.

Önnur skemmtileg þróun er að konur á fimmtugsaldri eru líklegri til að yfirgefa hefðbundin stórfyrirtæki og stofna sín eigin, samkvæmt bandarískum rannsóknum. En fyrirtækjabragur í bandarískum fyrirtækjum getur verið ansi harður í samanburði við íslenskan. Stutt frí og unnið lengi fram eftir ásamt því að gert er ráð fyrir að fólk fylgi reglum fyrirtækisins, bæði formlegum og óformlegum. Eitt skemmtilegt dæmi sem ég las um í rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við konur sem höfðu farið úr stórum fyrirtækjum og stofnað sitt eigið var um konu á sextugsaldri sem hafði þetta að segja: "Ég nennti þessu ekki, það var bannað að vera með hatt í vinnunni svo ég hætti bara og stofnaði hattabúð."

Á heldina litið virðist sem sagt seinna kynþroskaskeið kvenna eða breytingaldurinn verða til þess að valdefla þær - bæði til valda og breytinga. Ekki leiðilegt að eiga þetta eftir en sem betur fer má ég vera með hatt í vinnunni minni, ef ég vill.