Guðrún Pétursdóttir síðar Waage fæddist 22. júní 1942 á Arnarstapa við Breiðuvík. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 11. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Pétur Ottó Sigurbjarnarson, f. 4. nóvember 1911 á Malarrifi undir jökli, d. 30. janúar 1993, og Sigurást Jónsdóttir, f. á Arnarstapa 28. ágúst 1914, d. 26. apríl 2001. Hún flutti ung með foreldrum sínum til Reykjavíkur þar sem hún gekk í Laugarnesskólann og síðar í Kvennaskólann þar sem hún lauk bæði landsprófi og kvennaskólaprófi.


Guðrún var frá unga aldri með afbrigðum vinnusöm, bar út blöð með skóla í allan vesturhluta Kópavogs, vann einnig í Þorsteinsbúð við Snorrabraut í nokkur ár, með skóla, og afgreiddi í söluturni við Brekkulæk á kvöldin með fullri vinnu á skrifstofum Vélsmiðjunnar Héðins. Árið 1962 sigldi hún til Kaupmannahafnar til þess að vinna, nema og sjá heiminn. Þar vann hún hjá Köbenhavns Kul og Koks kompanie á Islands brygge. Guðrún var ánægð í Kaupinhöfn og mat þá borg ævinlega mikils.

Svo gerðist það að á vegi hennar varð förusveinn íslenskur, Tómas Waage, f. 6. júní 1939, og felldu þau þegar hugi saman. Þau settu upp sitt bú í Reykjavík og Guðrún helgaði sig að mestu heimilinu og dætrunum Ástu Björk, f. 17. júlí 1963, og Helgu, f. 5. mars 1965, næsta áratuginn.


Svo vildi hún fara aftur á vinnumarkaðinn og vann m.a. hjá Ferðamálaráði og líkaði vel. Danmerkurfiðringur tók sig þó upp aftur og þau fóru þangað í tveggja ára leiðangur. Heimkomin féll meiri ró yfir, Guðrún varð skrifstofustjóri hjá Pappírsvörum/Kjörís og undi þar vel. Síðustu árin vann hún hjá Landspítalanum á rannsóknastofu í réttarlækningum.


Aðaláhugamál Guðrúnar tengdust heimilinu og velferð fjölskyldunnar. Hún sinnti dætrum sínum vel alla tíð og lagði mikla rækt við sambandið við barnabarnið, Hrefnu Helgadóttur, f. 29. september 1989. Hún hafði mikla ánægju af matseld, bakstri, ræktun, prjóni, saumaskap og ekki síst sífelldum breytingum og lagfæringum á heimilinu, sem oftast voru gömul hús er þörfnuðust lagfæringa. Guðrún var með afburða smiðsauga. Hún sá í hendingu hvort línur voru beinar, láréttar, lóðréttar eða í vinkil. Ef teikning var rissuð á blað sá hún hlutinn fyrir sér og greindi strax atriði málsins. Alltaf fór vel á með þeim hjónum í þessu amstri, hann smíðaði, en hún skipulagði, greindi og lagði gjörva hönd á flest verkefni.


Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 24. apríl 2024, klukkan 13.

Mamma fór alltof skyndilega. Frá hefðbundnu páskalambsmatarboði þar sem hún sá um alla framkvæmd og frágang (af því þannig vildi hún hafa það) og þangað til við sátum og héldum í höndina á henni meðan hún tók síðustu andardrættina liðu innan við tvær vikur.

Ég hef verið að reyna að rifja upp einhverjar skemmtilegar minningar til að ylja mér við, en finnst ég ekki muna neitt. Eina sem ég man um mömmu er návistin. Hún var alltaf til staðar hvort sem það var í næsta húsi eða yfir hafið. Manni leið alltaf betur í návist mömmu. Ekki það að hún væri alltaf skemmtileg (þ.e. samkvæmt henni, hún baðst afsökunar á að vera ekki nógu skemmtileg þegar hún lá á gjörgæslu), þótt vissulega væri hún það yfirleitt. En hún hafði góða návist.

Mamma var ekki allra. Það var erfitt að kynnast henni og hún hleypti fólki ekkert endilega nálægt sér. Hún kunni vel við eigin félagsskap og sótti ekki í margmenni. En ef hún hleypti fólki að sér þá átti það hennar tryggð og umhyggju uppfrá því. Þegar ég skildi við Helga barnsföður minn útskýrði hún fyrir mér að henni þætti óskaplega leiðinlegt að okkar samband hefði ekki gengið upp, en sambandi þeirra væri ekki lokið. Í hennar lífi voru ekki til fyrrverandi tengdasynir.

Þegar hún hafði tekið fólki þá leit hún á sitt hlutverk að styðja fólk og hvetja. Það var ekki hennar að gagnrýna eða gera lítið úr fólki. Og ef henni var sagt frá viðkvæmum málefnum þá fór það aldrei lengra. Það þurfti ekki að biðja um hennar trúnað.

Mamma var mjög vel gefin og átti gott með að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Hún hafði gaman af að leysa allskyns gátur eins og krossgátur og myndagátur, en hafði auk þess gaman af sakamálasögum og -þáttum. Hún var bæði mjög forvitin en líka tortryggin, og tók öllu með miklum fyrirvara.

Það er alltaf verið að ljúga að manni sagði hún þegar hún sá eitthvað sem henni fannst tortryggilegt, en reyndi jafnframt að kafa ofan í málið.

Við erum svo lánsöm að búa í næsta húsi og oft kom hún á spani yfir garðinn með einhver mál sem hún hafði rekist á og vildi ræða til að komast að hinu sanna í málinu. Þetta voru oft málefni sem sneru að tækni eða einhverju sem var í fréttum eða grunsamlegum tölvupóstum. Stundum kom hún búraleg til að segja frá afrekum síns fólks en hún nennti ekki að tala um sér óskylt fólk.

Samband foreldra minna var kærleiksríkt og notalegt. Þau eru mjög ólík en bættu hvort annað upp. Svolítið eins og jörðin og vindurinn, þar sem mamma var jarðtengingin en pabbi draumóramaðurinn. Pabbi talaði og sjarmeraði fólk, mamma sá til þess að það gerðist sem um var talað. Mamma talaði oft um það hversu hentugt það væri hversu hávaxinn hann væri, af því það væri svo auðvelt að finna hann í mannfjölda þegar hann ráfaði eitthvað í burtu. Þessu trúði ég lengi vel. Þangað til alveg nýlega að við fórum saman til Danmerkur í brúðkaup og það var hún sem skaust inní þvergötur, inní búðir eða þurfti aðeins að kíkja, ég sé ykkur á eftir. Við týndum pabba hins vegar aldrei.

Foreldrar mínir kynntust í Danmörku fyrir ríflega 60 árum og mamma bjó í Kaupmannahöfn í nokkur ár. Hún missti útúr sér að hún hálf-skammaðist sín fyrir að hún hefði aldrei komið upp í Rundetaarn, það hefði alltaf eitthvað komið uppá. En í þessari ferð gengum við loksins upp allan turninn.

En eins boðin og búin og hún mamma var að aðstoða aðra þá átti hún erfitt með að þiggja aðstoð sjálf. Hún lenti í árekstri síðasta vetur og varð hvekkt á að keyra. Ekkert mál mamma mín sagði ég við erum bara í næsta húsi og munar ekkert um að skutlast. En það var henni erfitt að biðja um það og oftast þurftum við að minnast á að núna værum við að fara í Melabúðina, eða Ikea, eða hvert við giskuðum á að hún þyrfti að fara. Þess í stað gekk hún allra sinna ferða; í fiskbúðina, til læknisins, niður í bæ, 3, 4, 5 km vegalengd í vetrarveðri.
Það er erfitt að hugsa til þess að konan sem gekk 4 km eftir fiski nokkra daga fyrir páska sé ekki hjá okkur lengur. Hún mamma mín var hryggjarstykkið í okkar litlu fjölskyldu og núna þurfum við útlimirnir að reyna að púsla okkur saman upp á nýtt.

Helga Waage.