Brynhildur Fjölnisdóttir fæddist á Fæðingarheimili Reykjavíkur 28. maí 1967. Hún lést á Landspítalanum 6. apríl 2024 eftir stutt en erfið veikindi vegna krabbameins.

Foreldrar hennar eru Arndís Guðmundsdóttir, f. 1. apríl 1938, og Fjölnir Stefánsson, f. 9. október 1930, d. 24. nóvember 2011.

Systur hennar eru Ingibjörg, f. 31. október 1958, maki Brynjar Kvaran, f. 16. janúar 1958, börn þeirra Hlíf og Fjölnir, og Þorbera, f. 20. janúar 1962, maki Karl Sesar Karlsson, f. 19. maí 1962, börn þeirra Stefán Björn, Arnhildur og Hrafnkell.

Dóttir Brynhildar er Arndís Anna Pétursdóttir, f. 8. janúar 2010. Faðir hennar er Grétar Pétur Geirsson, f. 24. september 1958, en þau Brynhildur slitu samvistir.

Brynhildur ólst upp frá fæðingu í Kópavogi og bjó þar alla tíð fyrir utan sjö ár í Danmörku.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og burtfararprófi í einsöng frá Tónlistarskóla Kópavogs. Auk þess lauk hún námi í einsöng og hljómfræði í Árósum og kirkjusöngvaraprófi frá Roskilde Kirkemusikskole.

Á yngri árum var hún sumarstarfsmaður hjá Tryggingastofnun og eftir heimkomu frá Danmörku starfaði hún um skamma hríð hjá Ríkisútvarpinu. Hún söng einnig með kór Kópavogskirkju.

Útför Brynhildar verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 24. apríl 2024, klukkan 13.

Þegar sólin er farin að hækka á lofti, fuglarnir syngja sem mest þeir mega og vorið á næsta leiti berst okkur sú harmafregn að Brynhildur Fjölnisdóttir hafi kvatt þetta líf. Þó kallið hafi kannski ekki komið á óvart hafði vonin lifað með okkur að hún fengi lengri tíma, fengi að njóta vorsins sem var svolítið hennar tími; sólskinsstundir á pallinum, berar tásur og þykkar peysur víkja fyrir léttum og litríkum sumarkjólum. Þetta vor átti að verða enn þá skemmtilegra því mikið stóð til. Ferming einkadótturinnar var fram undan auk þess sem von var á tveimur litlum frændsystkinum og því er sorgin enn þungbærri að hún sé kölluð á brott frá ungri dóttur, móður, systrum og fjölskyldum.

Við systkinin höfum þekkt Brynhildi og systur hennar frá æskuárum okkar, alin upp á sömu þúfu og alla tíða mikill samgangur á milli heimilanna. Við undum okkur við leik úti eða inni eftir því hvernig viðraði og svo var laumast í drekkutíma þar sem best var boðið.

Brynhildur var mikill fagurkeri og ber heimili hennar vott um það. Fallegir munir í hverju horni og raðað saman á smekklegan hátt, að ógleymdum útsaumnum hennar. Brynhildur var vel að sér í sögu og uppruna hinna ýmsu húsgagna og skrautmuna og kom maður sjaldnast að tómum kofanum hjá henni um þau efni.

Brynhildur var tónelsk og unni klassískri tónlist eins og hún átti kyn til. En áhugi hennar á Eurovision-söngvakeppninni var líka mikill og nutu vinir og vandamenn góðs af því þegar hún var búin að greina öll keppnislögin og gefa út sína stórkostlegu pistla með ráðleggingum um hvað þyrfti að hlusta á og hvað ekki.

Brynhildur gaf ekki bara út stórskemmtilega Eurovision-pistla heldur sendi hún þeim sem henni fannst þurfa á því að halda, árlega áminningu um ýmsar tímasetningar fyrir jólaundirbúninginn. Hún minnti okkur á hvenær þyrfti að byrja að bródera jóladúkana, kaupa jólagjafir, skrifa á jólakortin og hversu margar smákökusortir væri rétt að baka fyrir jólin. Þessar áminningar voru náttúrulega bráðfyndnar og uppfullar af húmor. Einhverjir reyndu að malda í móinn en hún lét engan komast upp með að vera Skröggur og eyðileggja jólastemninguna.


Áhugi Brynhildar á konungsfjölskyldum var mikill, sérstaklega þeirri dönsku og bresku. Hún var óspör á upplýsingar um hvað var í gangi hjá meðlimum þessara fjölskyldna og það voru hátíðisdagar þegar mikið stóð til eins og brúðkaup eða krýning. Fyrir tæpu ári hélt hún til að mynda stórkostlegt boð, sem verður lengi í minnum haft, í tilefni af krýningu Karls III þar sem öllu var tjaldað til. Þar var hún í essinu sínu og með aðdáunarblik í auga yfir nýkrýndum konungi.

Fyrir ári fórum við systurnar með þeim systrum Ingibjörgu, Þorberu og Brynhildi í helgarferð til Kaupmannahafnar. Við áttum þar dásemdardaga og minningar úr þeirri ferð eru okkur dýrmætar. Brynhildur var á heimavelli í borginni eftir að hafa búið þar til nokkurra ára. Þegar hún áttaði sig á því að hótelið sem við gistum á hafði eitt sinn hýst eitt stærsta vöruhús Kaupmannahafnar réð hún sér ekki fyrir kæti og ekki síst fyrir byggingarstílinn á því. Á rölti frá hótelinu fram hjá Rósenborgarhöllinni að Amalíuhöll drottningar vissi hún allt um merkilegar byggingar og nánast hver bjó hvar. Fyrir framan höllina þótti okkur við hæfi að stilla okkur upp fyrir myndatöku með lífvörð hennar hátignar í baksýn. Á einni myndinni horfum við allar á ljósmyndarann nema Brynhildur, sem var augljóslega að leita að einhverju mikilvægu í töskunni sinni. Skýringin sem hún gaf þegar hún sá myndina var: Ég er viss um að ég setti veldissprotann í töskuna. Þetta var einmitt eitt af því sem einkenndi Brynhildi, hnyttin í tilsvörum og húmorinn aldrei langt undan. Hún gat gert létt grín að fólki án þess að særa nokkurn, en oftast gerði hún þó mest grín að sjálfri sér.

Brynhildur gaf okkur eitt gott ráð fyrir löngu, sem við höfum óspart nýtt okkur í gegnum tíðina. Þegar við erum að velta því fyrir okkur hvort við eigum að láta eitthvað eftir okkur í verslunarferð þá sagði Brynhildur: Þú sérð kannski eftir því í korter ef þú kaupir þetta en átt eftir að sjá eftir því alla ævi ef þú kaupir þetta ekki. Það er gott að hugsa um minningar sem þessar og við eigum örugglega eftir að gera það oft í framtíðinni og hugsa til Brynhildar í leiðinni.

Við minnumst glaðværrar vinkonu með hlýhug, kaffiboðin verða ekki þau sömu án hennar og við munum sakna þess að fá ekki skemmtileg og hnyttin tilsvör frá henni með góðum skammti af hennar smitandi og dillandi hlátri.

Ástvinum Brynhildar sendum við innilegar samúðarkveðjur. Megi minningin um lífsgleði Brynhildar vera ykkur leiðarljós á erfiðum tímum.

Guðmundur, Helga, Kristín og Berghildur.