Guðsteinn Frosti Hermundsson fæddist 25. ágúst 1953 í Egilsstaðakoti í Villingaholtshreppi. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 28. mars 2024. Foreldrar hans voru Hermundur Þorsteinsson bóndi, f. 8.10. 1913, d. 31.12. 1999 og Laufey Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 20.3. 1920, d. 5.1. 2019. Systkini eru Helga Elín, f. 22.10. 1944, Sigurbjörg, f. 6.6. 1947 og Einar, f. 23.11. 1955.
Guðsteinn kvæntist á jóladag 1977 eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Tómasdóttur frá Hafsteini á Stokkseyri, f. 29.11. 1954. Foreldrar hennar voru Tómas Karlsson útgerðarmaður, f. 20.11. 1923, d. 27.11. 2008 og Bjarnfríður Símonardóttir húsfreyja, f. 26.12. 1921, d. 11.2. 2007.
Börn Guðsteins og Kristínar eru: 1) Margrét Harpa, f. 15.6. 1977, maki hennar er Ómar Helgason og börn þeirra eru Kolfinna Sjöfn, Hafdís Laufey, Hrafnkell Frosti og Helgi Tómas. 2) Hermundur, f. 10.12. 1980, maki hans er Nína Dóra Óskarsdóttir og börn þeirra eru Þorgerður Kolbrá, Óskar Atli, Hrafnhildur Karitas og Ingibjörg Katrín. 3) Bjarnfríður Laufey, f. 24.3. 1982, maki hennar er Ólafur Þór Jónsson og börn þeirra eru Jón Finnur, Kristín Björk og Egill Frosti. 4) Tómas Karl, f. 21.3. 1990, maki hans er Una Kristín Benediktsdóttir og börn þeirra eru Benedikt Trausti og Harpa Kristín.
Guðsteinn ólst upp við hefðbundin sveitastörf í Egilsstaðakoti. Hann tók landspróf frá Selfossi og síðar meirapróf. Hann stundaði nám við smíðar en þurfti að hætta vegna afleiðinga slyss. Guðsteinn var bóndi allt sitt líf en vann einnig við ýmis störf meðfram búskapnum, s.s. í fiskvinnslu, í sláturhúsi, við smíðar, leigubílaakstur og dyravörslu. Guðsteinn keypti Vesturbæinn á Egilsstöðum ásamt konu sinni og hófu þau búskap þar 25.6. 1977. Þau voru með blandaðan búskap og lögðu aðaláherslu á fjárrækt og kartöflurækt. Fyrstu árin stundaði Guðsteinn selveiði í Þjórsá en stundaði einnig netaveiði á laxi í Þjórsá alla sína búskapartíð. Guðsteinn og Kristín voru með fjölmörg börn í sumardvöl í sveit og eins voru þau með fósturbörn bæði til skemmri og lengri tíma.
Guðsteinn var glaðlyndur og mjög félagslega sinnaður, sat um tíma í stjórn Búnaðarfélagsins og einnig í stjórn Landssambands kartöfluframleiðenda. Hann var mikill söngmaður og söng nánast alla sína tíð í Kirkjukór Villingaholtskirkju.
Guðsteinn fékk alvarlega heilablæðingu 1. júlí 2018 og hætti búskap í kjölfarið. Hann bjó síðustu ár á hjúkrunarheimilunum Fossheimum og Móbergi á Selfossi.
Útför Guðsteins Frosta fer fram frá Selfosskirkju í dag, 12. apríl 2024, klukkan 13.

Guðsteinn var hinn pabbi minn og það eru orð að sönnu því hann og Kristín kona hans voru fyrirmyndir mínar í níu sumur. Ég fór í sveit á Egilsstöðum 2 í Villingaholtshreppi til Systu frænku (Kristín) og Guðsteins um vorið þegar ég var sjö ára og var þar öll sumur fram að síðasta bekk grunnskóla, 15 ára gamall. Var mættur um 20. maí og fór í lok ágúst og því má segja að tími minn með þessu sómafólki hafi verið drjúgur tími barnæsku minnar.

Ég man þegar ég kom fyrst og krakkaskarinn sem var kominn á undan mér var enginn smá hópur, þarna voru auk heimasætunnar hennar Margrétar Hörpu þeir Raggi og Robbi, Ásdís og nokkrir aðrir sem ég man ekki lengur hverjir voru ásamt Hafsteini heitnum, bróðir Systu, sem var þarna vinnumaður um vorið. Sumir voru stutt en við Raggi, Robbi og Ásdís vorum þarna allt fyrsta sumarið. Fjöldi krakka hefur notið handleiðslu þeirra hjóna í gegnum árin og lítur maður á mörg þeirra sem uppeldissystkini sín. Egilsstaðir eru þrír bæir á sömu torfunni, og á hinum tveim bæjunum voru krakkaskarar einnig, það voru því oft ærslafull og skemmtileg sumarkvöldin þegar krakkarnir tóku sig saman og fóru í yfir, fallin spýta, fóru í útreiðartúra eða bara labba um sveitina, skoða skurði og gera stíflu. Og ekki skemmdi fyrir að ekkert sjónvarp var á fimmtudögum né allan júlímánuð. Guðsteinn og Systa voru glaðlynd og hress, og treystu okkur krökkunum að gera ekki axarsköft en gripu inn í ef of langt var gengið. Þau voru ungir bændur með mikla byrði en alltaf var stutt í hláturinn.

Ég fékk að vinna á mínu fyrsta sumri en það var ekki krafa, ég sóttist eftir því og fékk því að hjálpa til, raga kartöflur, moka undan kálfastíunni, raka meðfram girðingum í heyskap, safna grjóti og moka sandi í poka fyrir látur í Þjórsá fyrir laxanet og svo mætti lengi telja. Nægur tími var einnig til að leika sér og njóta í náttúrunni í sveitinni og á rigningardögum var gott að hanga inni og lesa bækur. Ég undi mér vel í sveitinni hjá Systu og Guðsteini.

Guðsteinn var glettinn, hafði gaman af að stríða á gamansaman hátt og fleygði fram vísum og gamanorðum sem við krakkarnir nutum að hlýða á. En bóndinn var alltaf stutt undan og var unun að fylgjast með honum að halda utan um búskapinn í minnisbókum þar sem hann skrifaði hjá sér áburðarnotkun, kartöflurækt, upplýsingar um fjárbúskapinn, heyskapinn og slíkt. Og alltaf tók hann öryggið alvarlega án þess að kasta gleðinni, passaði að halda okkur krökkunum frá drifsköftum en leyfði okkur að vera í vagninum, klifra í hlöðunni ef nægt hey var undir og svo framvegis.

Guðsteinn treysti mér til að vera vinnumaður upp úr 12 ára aldri, var ekki í fullu starfi en ekki þurfti að greiða með mér og ég fékk smá greitt eftir sumarið fyrir framlagið, þá var ég stoltur og ánægður með sjálfan mig. Síðustu þrjú sumrin var ég vinnumaður hjá þeim en ég gleymi því ekki að það var komin smá löngun að vera með vinunum á sumrin síðasta sumrið. Í lok sumars spyr Guðsteinn hvort ég væri orðinn leiður á sveitinni og ég þorði ekki að játa því en þá sagði Systa: Rikki minn, þú þarft ekki að koma og vinna hjá okkur, það kemur maður í manns stað. Innsæi þeirra hjóna var mikið gagnvart okkur krökkunum og þau þekktu mig betur en ég sjálfur.

Næstu árin á eftir kíkti ég í heimsókn, skaust í gæsaveiði með pabba til þeirra á haustin og eitt sumarið heyrði ég í þeim í heyskap og þau vantaði hjálp, ég stökk til og var hjá þeim í viku í heyskap að hjálpa til. Alltaf var gott að koma í heimsókn í sveitina og var vel tekið á móti okkur. Við krakkarnir sem vorum í sveit komum líka saman á endurfundum og það var dásamlegt að koma til þeirra með fjölskyldu sína, að kynna fyrir þeim annan af uppeldisstöðum sínum og fólkið í kringum mann.

Í júnílok árið 2018 fagnaði faðir minn 75 ára afmæli og komu Guðsteinn og Systa til að fagna með okkur, við Guðsteinn áttum frábæra stund saman í garðinum hjá foreldrum mínum. En því miður var þetta síðasta skiptið sem við Guðsteinn áttum eðlileg samskipti því daginn eftir fékk hann heilablæðingu og var hann ekki samur eftir það. Ég hef hitt hann nokkrum sinnum síðan og gladdi það mig alltaf hvað hann var jákvæður og vel var hugsað um hann en gleði var eðli hans en því miður sat ekkert eftir hjá honum eftir heimsóknir okkar nema gleðin, skammtímaminni hans var ekkert og því var þetta erfitt fyrir alla aðra. Veikindi hans voru stutt í lokin og var það friðþæging að hann fékk að kveðja og er nú kominn í sumarlandið, heilbrigður og hress með glettna brosið og stutt í gamansama stríðnina.

Elsku Systa, Margrét, Hermundur, Benna og Tómas, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldna ykkar, söknuðurinn er mikill en minningarnar dásamlegar.

Elsku Guðsteinn, við sjáumst seinna og rifjum upp árin í sveitinni saman.

Þinn,

Ríkarður (Rikki).