„Ætla að gera mitt besta“

Iðunn Sigurðardóttir matreiðslumaður mun keppa fyr­ir Íslands hönd um titil­inn …
Iðunn Sigurðardóttir matreiðslumaður mun keppa fyr­ir Íslands hönd um titil­inn Nordic Chef eða mat­reiðslumaður Norður­land­anna.

Norður­landa­mótið í mat­reiðslu verður haldið í Herrning í Dan­mörku 18. og 19. mars næst­kom­andi og þar munu flottir full­trú­ar ís­lenskr­ar mat­ar­gerðar keppa um nokkr­ar verðuga titla. Íslend­ing­ar hafa náð framúrsk­ar­andi ár­angri á Norður­landa­mót­inu og ætla sér stóra hluti í ár.

Iðunn Sigurðardóttir matreiðslumaður er ein þeirra sem mun keppa fyr­ir Íslands hönd en hún keppir um titil­inn Nordic Chef eða mat­reiðslumaður Norður­land­anna. Iðunn hefur verið í bransanum í liðlega tólf ár og hún lærði hjá Fiskfélaginu.

Allt líf mitt snýst um mat

„Síðan lærði ég hjá Ara Þór sem er gaman að segja frá að sé þjálfarinn minn í þessari keppni. Ég er að vinna í Kaupmannahöfn á veitingastaðnum Barr um þessar mundir,“ segir Iðunn. Ástríðan fyrir matreiðslu frá því hún man eftir sér. „Ég hef alltaf haft mikla ástríðu fyrir matreiðslu en allt lífið mitt snýst um mat, hvort sem það er að elda, borða eða skoða myndir og uppskriftir. Fjölskyldan mín hefur mjög gaman af því að borða góðan mat svo að það hefur líka haft hvetjandi áhrif að elda fyrir þau eða fara saman út að borða.“

Hefur þú ávallt vitað hvað þú vildir verða þegar þú væri orðin stór?

„Ég er ekki enn búin að ákveða hvað ég vil verða þegar ég verð stór en ég vildi verða kokkur frá því að ég var 5 ára svo það mætti segja að ég hafi náð einu af mínum markmiðum með því,“ segir Iðunn og bætir við að hún verði þrítug á árinu og því sé nógur tími til að hugsa næstu skref.

Bestu kokkarnir frá öllum Norðurlöndunum taka þátt

 Hefur þú tekið þátt í mörgum öðrum matreiðslukeppnum?

„Þessi keppni verður mín tólfta, ég fór í Nemi ársins árið 2016, Norðurlandanemi ársins, Nordic junior chef sem er þessi sama og ég er að taka þátt í núna nema í ár er ég senior. Síðan hef ég tekið þátt í keppninni um Eftirrétt ársins nokkur skipti, Euro skills og núna síðast tók ég þátt í keppninni Kokkur ársins í nokkur skipti en síðast 2023 þegar ég lenti í 3ja sæti.“

Hver er munur á þessari keppni og þeim síðustu?

„Þessi matreiðslukeppni er mjög hörð, bestu kokkarnir frá öllum Norðurlöndunum eru að keppa og Norðurlöndin hafa verið að standa sig mjög vel á heimsmælikvarða. Aðal munurinn á þessari keppni og öðrum sem ég hef tekið þátt í er sá að við fengum að vita fyrirfram hvaða hráefni við ættum að nota og gátum þá æft nákvæmlega hvernig við viljum útfæra matinn en á flestum hinum keppnunum sem ég tók þátt í var „mistery basket“ fyrirkomulag, þá fengum við að sjá hráefnið daginn áður og höfðum klukkutíma til að skila matseðli.“ Iðunn segist vera reynslunni ríkari eftir að hafa tekið þátt í þessum matreiðslukeppnum og hver keppni sé góð í reynslubankann. „Ég græði svo ótal margt í hvert skipti sem ég tek þátt í svona keppni, ég verð skipulagðari, öruggari, hraðari og ég læri nýjar uppskriftir og nýja tækni. Það að auki kynnist maður öðru fólki úr bransanum, oft á alþjóðlegum vettvangi og svo má ekki gleyma að það er ekki hægt að gera allt einn svo að maður þarf gott fólk sem stendur við bakið á manni og þegar farið er í gegnum svona æfingarferli styrkir það oft sambönd milli fólks.“

Skemmtilegast í þessum heimi

Hvaða hæfileika þarf matreiðslumaður Norðurlandanna að hafa til brunns að bera?

„Matreiðslumaður Norðurlandanna þarf að vera skipulagður, hraður, bragðgóður, hæfileikaríkur og vera vel upp lagður þann daginn,“ segir Iðunn alvörugefin. Iðunn er búin að setja sér markmið fyrir komandi keppni. „Mín markmið fyrir keppnina eru skýr, ég ætla að gera mitt besta og njóta þess að fá að gera það sem mér finnst skemmtilegast í þessum heimi. Ég er búin að æfa mig í rúma tvo mánuði núna, ég er búin að taka helling af litlum æfingum þar sem áherslan var á ákveðinn part af hverjum rétt fyrir sig og svo hef ég tekið þó nokkrar tímaæfingar þar sem ég æfi allt á þeim tíma sem ég fæ í keppninni.“

Hvað er það sem skiptir máli að hafa á hreinu til að ná árangri í keppni sem þessari?

„Til þess að ná árangri í svona keppni held ég að það sé mikilvægt að hafa gott fólk með sér sem er tilbúið að gagnrýna það sem þú ert að gera og horfa á allt með nýjum augum. Einnig er elja og ákveðni góðir kostir að hafa.“

Aðspurð segir Iðunn að hún sé ekki búin að ákveða hvað hún vilji að framtíðin beri í skauti sér. „Ég er ennþá að finna mína leið, ég veit ekki alveg hvert ég stefni en eina sem ég veit er að ég vil njóta þess að gera góðan mat í góðum félagsskap. Hvaða varðar keppnina sem framundan er þá er ég mjög spennt og mér þykir það mikill heiður að fá að taka þátt í þessari keppni með öllu þessu flotta fagfólki sem við eigum á Íslandi,“ segir Iðunn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert