Ingveldur rekstrarstjóri Dineout

Ingveldur Kristjánsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Dineout.
Ingveldur Kristjánsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Dineout. Ljósmynd/M. FLOVENT

Ingveldur Kristjánsdóttir hefur tekið við sem rekstrarstjóri hjá Dineout. Um er að ræða nýja stöðu hjá hugbúnaðarfyrirtækinu. Ingveldur mun sinna daglegum rekstri, áætlanagerð, fjármálum, markaðsmálum og greiningu nýrra tækifæra. Hún hefur þegar hafið störf.

Síðustu sex ár hefur Ingveldur rekið sitt eigið markaðsfyrirtæki og aðstoðað hin ýmsu fyrirtæki, meðal annars Dineout, við að gera sig sýnilegri með stafrænni markaðssetningu. Hún hefur einnig komið víða við í atvinnulífinu og hefur til að mynda unnið hjá Hagkaup, Marel og Íslandsbanka. Ingveldur er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í markaðsfræði frá sama skóla.

„Það hefur verið lyginni líkast að fylgjast með vexti og velgengni Dineout frá því að ég kynntist Ingu Tinnu og fyrirtækinu fyrir nokkrum árum. Það er því ánægjulegt að fá loks tækifæri til að taka þátt í komandi sókn Dineout sem ætlar sér stóra hluti á markaði sem er í stöðugri þróun og reiðir sig í mun meira mæli á tækni til að auðvelda reksturinn,“ segir Ingveldur í fréttatilkynningu. 

Inga Tinna Sigurðardóttir, forstjóri Dineout.
Inga Tinna Sigurðardóttir, forstjóri Dineout. Ljósmynd/Aðsend

Dineout var stofnað árið 2017 af Ingu Tinnu Sigurðardóttur og bróður hennar, Magnúsi Birni Sigurðssyni, sem eru meirihlutaeigendur fyrirtækisins núna. Fyrirtækið hefur þróað frá grunni kerfi þar sem hægt er að sýsla með allt er viðkemur rekstri veitingastaðar á einum miðlægum stað. Lausnirnar eru meðal annars borðabókunarkerfi, kassakerfi, matarpöntunarkerfi, rafræn gjafbréf, vefsíður, tilboð, viðburðir, salaleiga og veisluþjónusta. Hjá fyrirtækinu starfa nú 16 manns sem vinna meðal annars að hugbúnaðarþróun, sölu og þjónustu.

„Það er frábært að fá Ingveldi formlega inn í sístækkandi teymi Dineout. Hún þekkir reksturinn afar vel, sem og það umhverfi sem við störfum í enda hefur hún unnið með mér sem sjálfstæður ráðgjafi allt frá stofnun Icelandic Coupons, sem sameinaðist Dineout á síðasta ári. Nú er fullkominn tími að fá Ingveldi með okkur í lið þar sem fyrirtækið og kúnnahópurinn stækkar ört, á sama tíma og verkefnum fjölgar, bæði hérlendis og erlendis. Hún býr yfir dýrmætri reynslu sem mun nýtast okkur vel í þeim fjölbreyttu og spennandi verkefnum sem fram undan eru,“ segir Inga Tinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert