Ástsælasti götubitinn í Parísarborg er hræbillegur

Ástsælasta götubitann í Parísarborg er að finna í Mýrinni og …
Ástsælasta götubitann í Parísarborg er að finna í Mýrinni og er fersk falafel-samloka, sem svipar til pítubrauðs, sem borin er fram með falafel-bollum, eggaldin og hummus. Ljósmynd/Samsett

L'As du Fallafel er svokallaður kosher miðausturlenskur veitingastaður, staðsettur við merka göngugötu Rue des Rosiers í hjarta gyðingahverfisins í Le Marais-hverfinu í Parísarborg sem útleggst sem Mýrin. Veitingastaðurinn er lofaður fyrir hina fersku og girnilegu falafel-samloku, sem svipar til pítubrauðs, sem borin er fram með falafel-bollum, eggaldin og hummus. Réttir veitingastaðarins L'As du Fallafel eru byggðir á norður-afrískri og miðausturlenskri matargerð. Vegna vinsælda veitingastaðarins og þess hve þröngt er setið teygir hádegisröðin sig oft á tíðum langt vel út eftir göngugötunni, en biðin er algjörlega þess virði.

Þó að falafel-veitingastaðirnir við framangreinda götu séu fjölmargir, þá er röðin á L'As du Fallafel talsvert lengri en á nærliggjandi stöðum sem eru í harðri samkeppni um hylli matargesta.

Óhætt er að fullyrða að hádegisverður á L'As du Fallafel sé upplifun, allt frá löngum biðröðum til önugs starfsfólks eftir atvikum sem er auðvitað partur af upplifuninni. Ef einhver í hópnum er ekki mikið fyrir falafel, þá býður veitingastaðurinn einnig upp á shawarma-rétti. Hægt er að panta mat utandyra og taka með sér eða að velja að sitja innandyra og upplifa stemninguna.

Falafel hnossgætið er í ódýrari kantinum eða kostar u.þ.b. 10 evrur og það getur verið notaleg upplifun að njóta þessa bragðgóða götubita á einhverjum fallegum og nærliggjandi torgum og á sama tíma fylgjast með mannlífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert