Taílenskt nautasalat að hætti læknisins

Ljósmynd: Ragnar Freyr Ingvarsson.

Þessi uppskrift sameinar tvo ólíka heima enda er um að ræða grillað nauta-ribey og síðan dýrindis salat – allt einum disk. Það er Læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson, sem á heiðurinn að þessari uppskrift en sjálfur segir hann að kosturinn við hana sé ekki bara hversu ljúffeng og falleg hún er heldur einnig hvað hún sé fljótleg. 

„Marineringin er fljótgerð og ekki þarf að marinera kjötið lengi – bara þann tíma sem tekur grillið að hitna. Og áður en maður veit af er komin veisla.“

Hér er hægt að nálgast bloggsíðu Ragnars. 

Dásamlegt og eldsnöggt taílensk nautasalat með chilli, radísum og seiðandi kryddjurtum

Fyrir fjóra

  • 600 g nauta-ribeye
  • 1/2 rauðlaukur
  • 5 radísur
  • 75 g blandað salat (einn poki)
  • 250 g kirsuberjatómatar
  • 1/2 agúrka
  • 1/2 gulrót
  • handfylli ristaðar salthnetur
  • 1 msk. sesamfræ
  • 1 rauður chili
  • handfylli basil
  • handfylli mynta
  • handfylli kóríander
  • 4 msk. jómfrúarolía
  • 2 msk. ferskur sítrónusafi
  • 2 hvítlauksrif
  • 5 cm engifer
  • 1/2 rauður chili
  • 1 msk. nam plah (fiskisósa)
  • 2 msk. soyasósa
  • 1 msk. sesamolía
  • 1 msk. hlynsíróp
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera kjötið í þunnar sneiðar.
  2. Hakkið hvítlaukinn og engiferið í matvinnsluvél eða með rifjárni, eða bara skerið hann smátt niður. Bætið chilipiparnum, soyasósunni, fiskisósunni, sítrónusafanum, hlynsírópinu, sesamolíu og salti og pipar og blandið vel saman.
  3. Ég setti svolítið af marineringunni á disk og lagði svo kjötsneiðarnar ofan á. Mér fannst ég vera rosalega sniðugur að hafa fundið upp svona tímasparandi aðferð til marineringar.
  4. Setjið svo nóg af marineringu ofan á kjötsneiðarnar og látið marinerast í 15 mínútur á meðan grillið hitnar. 
  5. Sneiðið grænmetið niður næfurþunnt.
  6. Grillið það svo í mínútu eða svo á hvorri hlið rétt til að brúna það að utan.
  7. Látið það svo hvíla um stund, og kólna aðeins, áður en það er lagt ofan á salatið.
  8. Svo er bara að raða salatinu saman. Fyrst græn lauf, kirsuberjatómata í helmingum. Leggja svo kjötið ofan á. 
  9. Því næst gulrætur sem ég flysjaði niður, þunnts neiddan rauðlauk, radísur, chili og salthnetur.
  10. Að lokum dreifði ég restinni af marineringunni yfir salatið, svo þurrristuðum sesamfræjum og svo fullt af ferskum kryddjurtum. 
  11. Ekkert eftir nema að skála og njóta! 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert