Leynitrix grillmeistara afhjúpuð

Tomahawk steik þykir mikið sælgæti.
Tomahawk steik þykir mikið sælgæti. mbl.is/

Til að tryggja að grillmáltíðin heppnist sem allra best er gott að vera með boðorðin tíu á hreinu. Þetta eru heilög boðorð sem allir alvöru grillarar eru fyrir löngu búinir að tileinka sér og ef þið temjið ykkur þessar reglur þá mun grillmennskan ganga enn betur.

  1. Hreinsaðu grillið áður en þú byrjar. Sumir kjósa að hita grillið fyrst og brenna þannig af því og renna svo yfir með bursta. Hvort heldur sem er þá er nauðsynlegt að renna yfir grindurnar áður en maturinn fer á.
  2. Passaðu að grillið sé orðið vel heitt. Það er stranglega bannað að setja matinn á kalt grillið og láta það hitna.
  3. Olíuberðu grindurnar svo að maturinn festist ekki við. Það er sorglegt að eyðileggja góðar grillrákir með klaufaskap.
  4. Ef þú ert með stórt grill getur þú svæðaskipt hitanum; haft aðra hliðina heitari fyrir prótein og hina á tempraðri hita fyrir meðlæti.
  5. Notaðu stáláhöld, alls ekki plast. Plast bráðnar, getur losað efni yfir í kjötið og almennt þykir það ekki gott til afspurnar að vera plastgrillari.
  6. Passaðu upp á að allur matur sem fer á grillið sé við stofuhita. Kaldur matur á ekkert erindi á grillið. Það ruglar eldunartímann og stuðlar að ójafnari eldun.
  7. Ekki vera grillníðingur. Það er ekkert sorglegra en fólk sem fjárfestir í forláta grilli fyrir fleiri hundruð þúsund en sleppir því að kaupa hlíf eða nennir ekki að setja hana á eftir að grillið hefur kólnað. Slík hegðun skilgreinist sem hámark metnaðarleysisins. Góður grillari fer vel með grillið sitt og notar það svo árum skiptir.
  8. Ekki færa matinn til á grillinu, eða eins lítið og þú getur. Leyfðu matnum að vera á sínum stað og fá á sig fallegar rákir.
  9. Ekki kremja kjötið á grillinu. Sú ranghugmynd að það eigi að þrýsta kjötinu á grindina er gjörsamlega glórulaus. Þetta er gert til að kreista safann úr kjötinu og reyna að flýta elduninni. Þetta eru hins vegar léleg vinnubrögð og ekki til eftirspurnar.
  10. Fjárfestu í góðum áhöldum. Það er galið að kaupa fokdýrt grill og grilla svo með heimilisgafflinum. Góðar tangir og góður spaði eru lykilatriði til að auðveldara sé að meðhöndla matinn og við mælum heilshugar með slíkum búnaði.
mbl.is