Dóra Bergs Sigmundsdóttir fæddist 6. nóvember 1944 í Vestmannaeyjum. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum 27. janúar 2018 eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein.
Móðir Dóru var Dóra Hanna Magnúsdóttir, f. 27. júní 1925, d. 30. júní 2013. Kjörfaðir Dóru var Sigmundur Andrésson, f. 20. ágúst 1922, d. 16. nóvember 2016. Blóðfaðir hennar var Sigurður Sverrir Jónsson, f. 23. apríl 1913, d. 29. maí 2001.
Bræður Dóru eru Bergur Magnús, f. 1947, Andrés, f. 1949, og Óskar, f. 1964. Þá átti Sigurður Sverrir, blóðfaðir Dóru, þrjá syni, þeir eru Guðjón, Hörður Ernst og Agnar Ellert.
Dóra giftist 31. desember 1971 Sigmari Magnússyni, f. 25. september 1948. Börn Dóru og Sigmars eru: 1) Hlynur, f. 1969, giftur Soukainu Nigrou, f. 1990, barn þeirra er Sigdór Zacharie, f. 2014. Fyrri eiginkona Hlyns er Svetlana Luchyk, f. 1973, börn þeirra eru Kateryna, f. 1993, gift Matthíasi, f. 1992, og Richard Óskar, f. 2003. 2) Dóra Hanna, f. 1974, gift Sighvati Jónssyni, f. 1975, börn þeirra eru Gabríel, f. 1998, Elmar Elí, f. 2005, og Embla Dís, f. 2010. 3) Heiðrún Björk, f. 1977, trúlofuð Vilbergi Eiríkssyni, f. 1976, börn þeirra eru Aron Ingi, f. 2007, og Arnar Gauti, f. 2009. 4) Andrés Bergs, f. 1980.
Dóra ólst upp í Vestmannaeyjum og bjó þar alla ævi að frátöldum nokkrum mánuðum þegar Heimaeyjargosið stóð yfir 1973. Hún lauk námi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum og stundaði nám við Húsmæðraskóla Reykjavíkur.
Dóra vann á yngri árum við fiskvinnslu. Auk uppeldis- og heimilisstarfa vann Dóra lengst af í fjölskyldufyrirtækinu Magnúsarbakaríi í Vestmannaeyjum sem afi hennar stofnaði 23. janúar 1923. Dóra vann einnig við ræstingar í Hamarsskólanum í Vestmannaeyjum.
Útförin fór fram í kyrrþey, að ósk hinnar látnu, frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 10. febrúar 2018.

Elskuleg móðir mín er látin, aðdragandinn að andláti var skammur. Hún hafði glímt við veikindi síðustu ár og einhverja hluta vegna þá tókst læknum ekki að finna meinið fyrr en síðast liðið vor. Þá var það farið að herja svo mikið á að eina úrræðið var að draga úr einkennum og hægja á ferlinu. Því miður virtist það ekki duga til og hvað sem gert var, virtist hafa öfug áhrif. Síðustu vikur voru henni mjög erfiðar og dró hratt að henni. Fyrir ári síðan óraði okkur ekki fyrir hvernig myndi fara. Já, margt getur breyst á skömmum tíma, skyndilega er ekkert nema bið í vændum eftir því óumflýjanlega, leiðarlokunum. Þegar leiðir skilja reikar hugurinn ósjálfrátt í þær samverustundir sem við áttum og allar bernskuminningarnar. Flestar minningarnar eru frá æskuheimilinu á Illugagötunni en þar var húsið oft fullt af krökkum úr næsta nágrenni og mamma tók vel á móti þeim. Mamma var oft ein með okkur systkinin þar sem pabbi var á sjó og reyndi hún að haga vinnunni þannig að hún gæti tekið á móti okkur eftir skóladaginn og sinnt heimilinu. Hún lagði mikla áherslu á að við sinntum lærdómnum áður en við færum að leika og að við fengum alltaf eitthvað gott í svanginn með ýmsum kræsingum sem hún hafði útbúið. Hún lagði sig alla fram við að búa okkur gott líf og koma okkur til manns. Hún var fórnfús og setti ávallt fjölskylduna í forgang. Hún vildi hafa allt í röð og reglu og lagði áherslu á að við tækjum þátt í heimilisstörfunum en vildi þó hafa sinn háttinn á. Það var t.d. ekki sama hvernig hengt var upp þvottinn, lagt var á borð og svo framvegis. Við vorum ekki alltaf sammála mæðgurnar, hún lét mig alveg heyra það ef henni hugnaðist ekki það sem ég tók mér fyrir hendur, enda kannski margt misgáfulegt eins og gengur og gerist. Með auknum þroska lærðist mér að virða betur hennar skoðanir og þó stundum hafi mér fundist vera komið nóg af afskiptaseminni þá vissi ég að bak við allt lá væntumþykja og ósk um að okkur farnaðist vel. Já, fjölskyldan var mömmu mikilvæg, hún hugaði ekki bara vel að okkur börnunum heldur einnig að foreldrum sínum, sérstaklega þegar heilsu þeirra fór að hraka á seinni árum. Hún lagði líka áherslu á að við systkinin legðum okkar að mörkum við að aðstoða þau t.d. með sendiferðum og öðru tilfallandi. Það má með sanni segja að hún hafi alla tíð hugsað meira um aðra en sjálfa sig. Oftar en ekki minntumst við á að hún þyrfti að fara að huga meira að sjálfri sér og hætta að hafa áhyggjur af öðrum, en ekki dugði það til. Hún reyndist barnabörnunum líka ákaflega vel, alltaf tók hún vel á móti þeim og var til staðar jafnvel þó hún væri ekki alveg heil til heilsunnar síðustu árin.
Elsku mamma við munum hugsa til þín með hlýju og þakklæti fyrir allt sem þú varst okkur, pabba, systkinunum og fjölskyldum. Það er skrýtið að þurfa að kveðja fyrir fullt og allt. Við sem eftir lifum yljum okkur við góðar minningar. Ég veit að hvíldin var kærkomin og að þú ert á góðum stað hjá ömmu og afa.

Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna
og varst þér sjálfri hlífðarlaus og hörð.
Þú vaktir yfir velferð barna þinna,
þú vildir rækta þeirra ættarjörð.
Frá æsku varstu gædd þeim góða anda,
sem gefur þjóðum ást til sinna landa,
og eykur þeirra afl og trú,
en það er eðli mjúkra móðurhanda
að miðla gjöfum eins og þú.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,
og þjóðin öll má heyra kvæðið mitt.
Er Íslands bestu mæður verða taldar,
þá mun þar hljóma fagurt nafnið þitt.
Blessuð sé öll þín barátta og vinna,
blessað sé hús þitt, garður feðra minna,
sem geymir lengi gömul spor.
Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna,
og bráðum kemur eilíft vor.
(Davíð Stefánsson)



Þín dóttir,

Heiðrún Björk.