Ingólfur Herbertsson fæddist á Akureyri 2. maí 1947. Hann lést 22. október 2017.
Foreldrar Ingólfs voru hjónin Herbert Tryggvason, f. 9. mars 1917, d. 28. október 2005, og Kristbjörg Ingvarsdóttir, f. 6. september 1919, d. 3. janúar 2010. Systkini Ingólfs eru Brynja Breiðfjörð, samfeðra, f. 18. september 1940, Ingvar, f. 2. maí 1947, d. 19. júlí 1961, og Ívar, f. 4. febrúar 1950.
Ungur eignaðist Ingólfur dóttur, Kristbjörgu Þóreyju, f. 4. maí 1967, maður hennar er Jakob Hermannsson, f. 5. október 1966. Þau eiga fjögur börn og eitt barnabarn. Ingólfur hóf síðar sambúð með Guðbjörgu Þóroddsdóttur, f. 23. október 1947, frá Syðri-Bakka í Kelduhverfi. Börn þeirra eru 1) Óskar, f. 7. maí 1972, kvæntist Elínu Björgu Jónsdóttur, f. 27.nóvember 1973, börn þeirra eru tvö. Óskar og Elín slitu samvistum.
Sambýliskona Óskars í dag er Áslaug Melax, f. 19. mars 1966, börn hennar eru þrjú og barnabörnin tvö. 2) Arney, f. 11. ágúst 1973, og á hún þrjá drengi. Áður átti Guðbjörg soninn Eyþór Örn, f. 5. febrúar 1967. Ingólfur og Guðbjörg slitu samvistum.
Árið 2005 tók Ingólfur saman við Ednu Falkvard, f. 22. september 1938. Hennar börn eru: 1) Soffía, f. 19. júní 1959. 2) Anton, f. 1. febrúar 1962. 3) Trausti, f. 18. ágúst 1966. 4) Erla, f. 16. nóvember 1975, d. 8. september 1990. 5) Ellen Fríða, f. 17. apríl 1979.
Ingólfur hóf ungur að starfa á Gefjun en allnokkur sumur dvaldi hann hjá Óskari móðurbróður sínum og hans fjölskyldu á Meiðavöllum í Kelduhverfi. Hann flutti sig um set í starfi árið 1988 og hóf störf hjá Kirkjugörðum Akureyrar. Árið 2006 ákvað Ingólfur að nú væri kominn tími til að lifa lífinu til fulls og hætti störfum.
Útför Ingólfs fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 6. nóvember 2017, klukkan 13:30.

Áratuga sönn vinátta hrannast nú upp í ský minninganna; ekkert verður eins og áður, ég sakna vinar í stað.
Ingólfi kynntist ég árið 1980 er hann vann á Sambandsverksmiðjunum en hann keypti oft bíla sem þurfti að lagfæra og seldi þá svo aftur í gegnum bílasöluna hjá mér. Tókust með okkur kynni sem byggðu ekki síst á sameiginlegu áhugamáli; stangveiði. Með okkur þróaðist vinskapur sem einkenndist af gagnkvæmri virðingu og samvinnu. Á verksmiðjunum voru áhugamenn um stangveiði sem höfðu stofnað veiðifélagið Ugga og tókst mér að komast í þann félagsskap. Upp frá því vorum við Ingólfur veiðifélagar, fyrst og fremst í Skjálfandafljóti. Með Jóhanni vinnufélaga hans mynduðum við þríeyki sem stundaði fljótið í um þrjá áratugi. Nú eru þeir báðir gengnir og líklega teknir til við veiðar á öðrum lendum. Góðar minningar og ógleymanlegar á ég frá samveru með þeim félögum, hvort heldur aflinn var enginn eða mokfiskirí og sama hvernig viðraði því allir höfðum við nautn af áhugamálinu; að lesa ána og veiða. Félagsskapurinn Uggi hafði framan af tvö hjólhýsi staðsett yfir sumartímann á bökkum fljótsins þar sem menn höfðu aðstöðu á sínum veiðidögum og oft var glatt á hjalla. Seinni árin fengum við aðstöðu í Fossselsskógi með góðvilja landeigenda, Vaðshjóna. Sá staður er þeirrar náttúru að tíminn verður afstæður, klukkan óþörf, í sálinni viðrar alltaf ögn betur og þangað sóttum við mjög.
Samverustundirnar með Ingólfi eru margar og margs að minnast. Við hjálpuðumst að við allt mögulegt og áttum samskipti flesta daga. Hann leitaði ráða hjá mér um ýmiskonar lagfæringar og var mjög vandvirkur í öllu. Margoft aðstoðaði hann mig hvort heldur ég var að vinna fyrir aðra eða sjálfan mig. Hann aðstoðaði okkur hjónin þegar við endurbyggðum sumarbústaðinn Láfsgerði og nú í vor málaði hann fyrir okkur að innan nýja húsið sem tekið var í notkun.
Ingólfur var vinur vina sinna en sérvitur og gat verið alveg óttalegur þverhaus en samt svo velviljaður sínum. Gerðu menn á hluta hans, þá gleymdi hann því ekki endilega en hann var nákvæmur, vandvirkur og vinnusamur. Áður en hann lagði í framkvæmdir hugsaði hann lengi hvernig best væri að framkvæma og sagði góður maður eitt sinn um hann: Það þarf ekki að fara í verkin hans sem eru orð að sönnu. Hann var hæglátur, mikið snyrtimenni, aðhaldssamur og fór vel með allt, bjó vel að öllu sínu hvort sem um var að ræða heimilið, bílskúrinn, verbúðina, bátinn, sumarbústaðinn eða bílana. Og hann var gersamlega laus við að vera kvartsár en tók því sem að höndum bar af stillingu.
Hann var náttúrubarn, uppalinn með annan fótinn í náttúruparadísinni í Kelduhverfi; nærðist af því sem náttúran gaf, veiðimaður í eðli sínu. Fyrir utan lax- og silungsveiði veiddi hann gæs, rjúpu og svartfugl og yfirleitt allt það sem leggja má sér til munns og hann var ósínkur á matarbita til vina sinna en lét ekkert frá sér öðruvísi en vel verkað og frágengið í umbúðum.
Fyrir um 30 árum kom Ingólfur sér upp sumarbústað í Mánahlíð norðan Vaðs. Þar naut hann sín við niðinn frá Skjálfandafljóti í skjóli frá hafgolunni, var sífellt að lagfæra og endurbæta, gróðursetja og á síðari árum að grisja skóg. Þar áttum við ótal margar góðar stundir og þessi staður var honum afar hjartfólginn.

Í sex ár höfum við átt með honum verbúð og lítinn bát sem hann hafði lengi átt í félagi við Jóhann vin sinn. Alltaf var til fiskur veiddur á sjóstöng; nýr, saltaður, siginn og hertur.
Eitt var það sem Ingólfur var mjög iðinn við öll þessi ár; það var að taka myndir og geyma þær minningar um margar og mismunandi samverustundir, en allar góðar. Líklega eru til myndir af öllum þeim löxum sem við veiddum saman.
Fyrir 12 árum fór hann í sólarlandaferð með félaga sínum. Þar lék lánið við hann því þá kynntist hann mikilli öðlingskonu, henni Ednu Sólbrúnu. Með þeim tókst vinátta, hlý og góð sem einkenndist af gagnkvæmri virðingu, þótt auðvitað gæti hvesst inn á milli eins og gengur, en sólskinið var gjarnan þeirra megin. Hann var óendanlega lánsamur með hennar félagsskap í öllu tilliti og ekki skemmdi fyrir að honum tókst að smita hana af veiðidellu. Í ljós kom að hún er hörku-aflakló, hvort heldur í laxveiði eða með honum á sjóstöng úti á Eyjafirði. Þau eyddu löngum stundum í bústaðnum Mánahlíð og fjölmörg ferðalög fóru þau saman, innanlands og utan. Eina ferð fórum við með þeim, sem aldrei gleymist, á hennar heimaslóðir í Færeyjum og á Ólafsvöku.
Ég sakna þín gamli minn.

Hjörleifur Gíslason