Ófeigur fæddist að Lækjarbakka á Skagaströnd 1. mars 1928. Hann lést 16. mars 2015. Foreldrar hans voru Marta Guðmundsdóttir frá Torfalæk í Torfalækjarhreppi og Pétur Jakob Stefánsson frá Höfðahólum í Höfðahreppi. Systkini Ófeigs voru Sigurbjörg (samfeðra), f. 1906, d. 1993, Guðmunda, f. 1914, d. 2001, Margrét, f. 1915, d. 2013, Jóhann, f. 1918, d. 1999, Elísabet, f. 1919, d. 2006, og Ingibjörg, f.
1921, d. 2013.
Ófeigur kvæntist árið 1950 Svanhvíti Ragnarsdóttur, f. 9. desember 1929. Hún er dóttir Guðnýjar Finnbogadóttur og Ragnars Eyjólfssonar frá Djúpavogi. Börn þeirra eru Aðalheiður, f. 1950, á dæturnar Ingibjörgu Kristinsdóttur með Kristni Dulaney og Svönu Hildebrandt með Níels Hildebrandt; Guðbjörg, f. 1953, maki Konráð Sigurbjörn Konráðsson, f. 1952, d. 2013, börn þeirra eru Sigfús Ófeigur, Signý og Konráð Sigurbjörn; Margrét, f. 1955, maki Magnús Jóhannsson, f. 1954, börn þeirra eru Katrín, Elín og Kristín; Jakob Viðar Ófeigsson, f. 1958, maki Elfa Kristinsdóttir, barn þeirra er Logi, með fyrri maka, Birgittu Bertilsdóttur, á Viðar synina Sigurjón Ragnar, Jakob Valentín og Óskar Valdimar, Elfa á dótturina Kristínu Margréti Norðfjörð. Langafabörnin eru ellefu.
Ófeigur lauk prófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1953. Hann var rafvirki hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga í 19 ár, verkstjóri hjá Rafha í Hafnarfirði í 14 ár og ræstingarstjóri hjá Háskóla Íslands í 10 ár. Ófeigur og Svanhvít bjuggu fyrstu búskaparárin í Reykjavík en frá 1963 bjuggu þau í Garðabæ. Ófeigur og Svanhvít voru samhent hjón. Þau ferðuðust víða, innan lands og utan og fóru m.a. 18 sinnum með Norrænu til meginlands Evrópu.
Útför Ófeigs fer fram frá Garðakirkju í dag, 27. mars
2015, kl. 13.

Þá hefur hann faðir minn elskulegur fengið hvíldina. Síðustu árin voru honum og okkur fjölskyldunni erfið eftir að hann, árið 2011, greindist með heilahrörnunarsjúkdóminn Lewy body og fljótlega rændi þessi skæði sjúkdómur hann allri starfsgetu.  Pabbi er af þeirri kynslóð Íslendinga sem upplifað hefur hvað mestar breytingar.  Hann fæddist í torfhúsi á Lækjarbakka á Skagaströnd, yngstur sjö systkina og þó efnin væru ekki mikil átti hann þar góð uppvaxtarár í hlýjum faðmi foreldra sinna.  Þó húsakynnin væru smá var hjartarýmið mikið og alltaf pláss fyrir næturgesti til lengri og skemmri tíma.  Á Skagaströnd ólst hann upp við mikið frelsi og var svolítill grallari, að því er systur hans tjáðu mér, átti t.d. til að vera með smá glettur þegar þær voru í heimsókn með sína verðandi eiginmenn.  En pabbi hafði gott hjartalag og þegar hann var ungur náði hann að nurla saman smá upphæð og kaupa kú til heimilisins ásamt nágrönnum á næsta bæ og deildu þau mjólkinni til helminga.  Móðir hans gat ekki tára bundist þegar hann færði henni kúna.  Á unglingsárunum var hann í sveit hjá góðu fólki á Mánaskál. Þegar árin tóku að færast yfir hafði hann gaman af að segja frá því sem á daga hans hafði drifið á yngri árum.

Pabbi var mikill verkmaður og ég man ekki eftir honum öðruvísi en sístarfandi.  Hann var alltaf að finna lausnir á því sem betur mætti fara á heimilinu, dyttandi að sínum fjölmörgu bílum og að aðstoða okkur systkinin, barnabörn og aðra við allskyns framkvæmdir.  Þó hann væri lærður rafvirki var hann sannkallaður þúsundþjalasmiður og fann oft skemmtilegar lausnir á flóknum verkefnum.  Þegar dætur mínar voru litlar og leikföng eða annað skemmdist var jafnan viðkvæðið ,,við látum afa gera við þetta".  Ég var ekki gömul þegar hann kenndi mér að gera við sprungin dekk á hjólinu mínu, sem og ýmislegt annað sem hefur komið sér vel í lífinu.  Stórum hluta ævinnar, sérstaklega eftir að hann hætti að vinna, eyddi hann í bílskúrnum.  Þar innréttaði hann ófáa ferðabíla af mikilli útsjónarsemi.  Pabbi var mikill snyrtipinni og var öllu haganlega fyrirkomið í skúrnum og bílarnir alltaf hreinir og snyrtilegir.  Ég viðurkenni að oft þreif ég bílinn minn ef ég vissi að pabbi yrði farþegi hjá mér.

Ég var fljótt mikil pabbastelpa og elti hann eins og skugginn og fylgdist með því sem hann tók sér fyrir hendur.  Að fara með honum í bíltúr þegar hann var í útréttingum eða að fara með honum á vinnustaði hans, eru í minningunni miklar hamingjustundir.  Sungum við oft í bílnum, hvort með sínu nefi, og lærði ég þá ýmsa texta.  Einnig eru minnisstæðar fjölmargar ferðir fjölskyldunnar á Djúpavog, en í þá daga þurfti að fara norður fyrir landið.  Voru þá systkini hans og ýmsir aðrir heimsóttir en alltaf gist hjá einhverju systkinanna, sem þá bjuggu á Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki og Akureyri.  Þannig kynntumst við systkinin, þ.e. við Viðar bróðir, okkar góða frændgarði og er það ómetanlegt.

Það er sár söknuður sem fylgir því að kveðja góðan föður sem alla tíð hefur verið svo stór hluti af lífi manns. Finnast mér orð Kahlil Gibran úr Spámanninum  eiga vel við að leiðarlokum: Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur hug þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín".  Hvíl þú í friði elsku pabbi.

Margrét Ófeigsdóttir.

Ófeigur Péturson tengdafaðir minn er látinn eftir erfið veikindi. Fyrstu kynni mín af Ófeigi voru þegar Viðar sonur þeirra hjóna Ófeigs og Svönu réði sig sem ráðsmaður að æskuheimili mínu í Stóru-Sandvík. Síðar urðu þau kynni nánari eftir að við Margrét fórum að búa saman. Ófeigur var fæddur að Lækjarbakka á Skagaströnd  þann 1. mars 1928 og var því rúmlega 87 ára þegar hann lést.  Svo vill til að Ófeigur átti sama afmælisdag og faðir minn þótt hann hafi fæðst talsvert fyrr, eða 1912. Ófeigur ólst upp á barnmörgu heimili við þröngan kost eins og gjarnt var á fyrri hluta síðustu aldar. Á æskuárum vann hann ýmsa sveitavinnu og sagði hann oft sögur af sveitalífinu af ótrúlega mikilli nákvæmni svo unun var á að hlusta. Ófeigur hleypti heimdraganum og hélt til Reykjavíkur og lærði þar rafvirkjun. Hann starfaði lengst af sem rafvirki hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga og sem verkstjóri í Rafha en síðustu ár starfsævinnar sem ræstingastjóri Háskóla Íslands. Fjölskylda Ófeigs var meðal frumbýlinga á Flötunum í Garðabæ. Mörg voru handtökin við húsbygginguna á Smáraflötinni, sem hann byggði með góðri aðstoð annarra. Ófeigur var mjög vandvirkur og útsjónasamur í öllum sínum verkum, fann oft einfaldar lausnir á flóknum hlutum. Þennan eigileika hefur Magga erft af föður sínum enda var hún honum náin og fylgdist með hvernig hann vann og lærði af.  Ófeigur var mjög hjálpfús og nutum við fjölskyldan oft aðstoðar hans þegar eitthvað þurfti að lagfæra eða breyta. Hann var sérlega nýtinn og hirðusamur maður og fór einkar vel með alla hluti.  Bílskúrinn var hans staður og þar var gömlum og nýjum hlutum haganlega fyrir komið. Ófeigur hafði yndi af bílum, átti þá marga í gegnum tíðina og húsbílar voru hans sérstaka áhugamál.  Ófáum bílum breytti hann í vistlega húsbíla og þar kom handlagni hans og útsjónasemi sér vel. Þess nutu þau Svana á húsbílaferðum sínum innanlands og utan.  Fjölmargar ferðir fóru þau á húsbíl með Norrænu til Norðurlandanna og niður Evrópu. Margar ferðasögurnar voru sagðar og gjarna flett í ljósmyndaalbúmum um leið.  Á ferðum þessum heimsóttu þau hjónin ættingja og vini og eignuðust jafnframt marga nýja vini sem þau héldu ætíð tryggð við. Þótt hugðarefni Ófeigs hafi fyrst og fremst legið í verklegum hlutum hafði hann einnig önnur áhugamál. Hann var mikill vinur smáfuglanna sem hann gaf reglulega í garðinum sínum, einnig hafði hann mikið yndi af stangveiði. Garðyrkju stundaði hann af kostgæfni með Svönu og ræktuðu þau m. a. kartöflur, rófur, gulrætur og jarðarber. Var garður þeirra til mikillar fyrirmyndar. Þarna tengdust áhugamál okkar og var ánægjulegt að geta verið þeim innan handar í garðræktinni, séstaklega þegar starfsorku Ófeigs hrakaði.  Síðustu árin voru Ófeigi mjög erfið, þegar hann hætti að geta sinnt sínum daglegu störfum og hugðarefnum. Lengi gat hann þó keyrt og með ótrúlegri lagni bakkað bílnum inn í þröngan bílskúrinn. Þau hjónin voru vinamörg og eiga stóran hóp afkomenda svo tíðar gestakomur vina og ættingja styttu honum stundir síðustu æviárin. Hann var þeirrar gæfu aðnjótandi að geta verið heima þar til nokkrum vikum fyrir andlátið. Þar naut hann dyggrar aðstoðar Svönu konu sinnar, en einnig hlupu ættingjar og vinir undir bagga. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt samleið með þeim sæmdarmanni sem Ófeigur var. Elsku Svana og fjölskylda megi kærar minningar um góðan mann færa ykkur styrk á sorgarstundum.

Magnús Jóhannsson