Skaftárhlaup í hálfa öld stærsti vandinn

Hér má sjá hvar hluti Skaftár fer út á hraunið …
Hér má sjá hvar hluti Skaftár fer út á hraunið við Brest. Þrjú ræsi hleypa jökulvatninu undir haftið sem sést á myndinni. Þau eru öll opin og hafa verið í að minnsta kosti í tvö ár. Myndin er tekin fyrir tveimur dögum. Ljósmynd/Vegagerðin

Framtíð Grenlækjar í Landbroti er óráðin. Hvað veldur vatnsþurrðinni í læknum? Það er stóra spurningin og svör sérfræðinga Vegagerðarinnar og Veðurstofu upplýsa um hið flókna ástand sem glímt er við þar eystra. Aðalhlutverkið í þessu flókna samspili fer Skaftá með og í raun íslensk eldfjallanáttúra sem gjarnan hefur verið í stóra hlutverkinu í Vestur–Skaftafellssýslu.

Eins og við höfum upplýst undanfarna daga er lækurinn þurr á um ellefu kílómetra kafla og hundruð sjóbirtinga drepist af þeim völdum. Þetta gerðist síðast árið 2021 og þar áður 2016.

Drjúgur hluti af því vatni sem rennur um Grenlæk í Landbroti er talinn eiga upptök sín úr Skaftá, þar sem henni er veitt í ána Brest. Við Brest er skurður sem tekur við jökulvatninu áður en það rennur um þrjú stór ræsi og út á hraunið við Brest. Til nokkurra ára var í gildi samþykkt frá Umhverfisráðuneytinu þar sem heimilað var að loka fyrir eitt af ræsunum þremur yfir sumarmánuði þegar leirframburður var hvað mestur. Undanfarin tvö ár að minnsta kosti hafa ræsin þrjú öll verið opin og það vatn sem kemur í skurðinn því runnið óheft út á hraunið.

Svanur Bjarnason svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðursvæði segir að staðan við ræsin hafi verið skoðuð af hans fólki fyrr í vikunni. Þar séu öll ræsin opin og það sem meira er að einnig renni vatn um rof í varnargörðum á svæðinu þannig að engin vatnsstýring sé í gangi af hálfu Vegagerðarinnar. „Vandamálið er fyrst og fremst það að það er svo mikill leir í Skaftánni að hraunið er alltaf að þéttast meir og meir. Ég held að það sé stór hluti af vandamálinu,“ sagði Svanur í samtali við Sporðaköst. Undanfarin tvö ár að minnsta kosti hafi vatn runnið óhindrað og þá vekur athygli að ekki varð vart við vatnsskort í Grenlæk í fyrra.

Hvað þarf að gera til að tryggja vatn í Grenlæk?

„Ég hef ekki svör við því. Þetta er svo margflókið mál,“ svarar Svanur. Hann er málinu vel kunnugur og átti meðal annars sæti í starfshóp sem skipaður var á vegum Umhverfisráðuneytisins fyrir rúmum áratug. Í þeim hópi sátu fulltrúar Vegagerðar, Landgræðslu (sem nú heitir Land og skógur), Sveitarfélagsins og voru kallaðir til sérfræðingar frá Veðurstofunni og Orkustofnun. Svanur segir að þessi hópur hafi haft það markmið að vinna framtíðarfyrirkomulagi á vatnsveitingum út á hraunið. Landgræðslan var mjög á móti vatnsveitingum út á hraunið og barðist hart gegn þeim, að sögn Svans. Enda hafi fulltrúar þeirrar stofnunar haft áhyggjur af gróðri í hrauninu. Að sama skapi veldur þurr leirinn á yfirborði sem situr eftir, miklu svifryki á sumrin á svæðinu. Veiðiréttarhafar hafi viljað meira vatn en á sama tíma hafi sérfræðingar ekki verið sannfærðir um að vatnið úr Skaftá skilaði sér endilega í Grenlæk eða ár á svæðinu.

Hér sjást rörin þrjú og að töluvert vatnsmagn fer út …
Hér sjást rörin þrjú og að töluvert vatnsmagn fer út á hraunið. Það er samdóma álit þeirra sérfræðinga sem við höfum rætt við að flókið sé að leysa þetta mál og helsti skaðvaldurinn er Skaftá og tíð hlaup úr Skaftárjökli. Á sama tíma er áin að hluta að lífæð Grenlækjar. Ljósmynd/Vegagerðin

Mælakerfi í ákveðnum ólestri

Óðinn Þórarinsson rekstrarstjóri mælikerfa hjá Veðurstofunni viðurkennir að Veðurstofan hafi ekki haft það bolmagn sem þarf til að sinna þeim vatnamælingum sem æskilegar eru á svæðinu til að geta svarað þeim spurningum sem nú brenna á fólki.

Forsagan er að orkufyrirtæki kostuðu lengi mælarekstur á svæðinu á grundvelli virkjunaráforma. Frá því að þau áform voru lögð til hliðar fyrir nokkrum árum „hefur rekstur mælakerfisins því verið í ákveðnum ólestri og við höfum verið að kalla eftir því frá stjórnvöldum að fá fjármagn í rekstur þess. Það hefur því miður ekki gengið eftir, en vonandi verður einhver hreyfing á því í ljósi þess hvernig málum er nú komið."

Óðinn segir að eftir að rannsóknarleyfi til virkjunar á svæðinu hafi verið lagt inn hafi mælakerfið þar eystra orðið meira og minna munaðarlaust. „Veðurstofan hefur skyldum að gegna gagnvart viðvörunum um jökulhlaup undan Skaftárjökli og við erum með mæla í rekstri í þeim tilgangi. Við erum með mæli við Sveinstind sem efsta mæli og ásamt því að hafa lengi fylgst með hæð íshellunnar yfir Eystri Skaftárkatli, þá rekum einnig mæli við Kirkjubæjarklaustur. En mælar sem áður voru í rekstri á svæðinu, bæði í mörgum grunnvatnsholum, í Tungulæk og Grenlæk, í Fljótsbotni, við útfall í Brest og víðar eru ekki í formlegum rekstri lengur,“ upplýsir Óðinn. Hann segir að mælingar, í Skaftárdal og í Eldvatni við Ása séu einnig í algeru lágmarki. „Það er ekki gott að þessar mælingar séu ekki lengur stundaðar, sérstaklega þegar kemur að hagsmunum þeirra sem horfa til lífríkis í Grenlæk og Tungulæk en við teljum okkar ágætlega sett hvað varðar vöktunar– og viðvörunarkerfi með tilliti til jökulhlaupa.“

Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að óvenju …
Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að óvenju lítil úrkoma hafi leitt til þess að lítið vatn sé í kerfinu. Þó er það svo að töluvert magn úr Skaftá rennur út á hraunið og undir hringveginn við Brest. Ljósmynd/Vegagerðin

Skaftárhlaupin helsta ástæðan  

„Þarna er líka náttúran að verki og þau Skaftárhlaup sem orðið hafa síðustu hálfu öldina eða svo eru ásamt með tilfallandi þurrkatíð meginástæða þess að við erum að lenda í þessum vandræðum. Hlaupin bera með sér aur og drullu út í hraunið og vatn á ekki eins auðvelt með að ná niður í lækinn og það gerði áður. Sú þróun mun halda áfram og við eigum von á Skaftárhlaupum líklegast annað hvert ár og það leiðir til þess að staðan á bara eftir að versna. Þessar vatnaveitingar um Brest hafa vissulega áhrif en ef við hleypum öllu jökulvatni þar út sem hægt væri, þá er það aðgerð sem endar bara á einn veg, að hraunið þéttist enn frekar og þá er viðbúið að það minnki vatnið til lækjanna, eftir sem áður,“ upplýsir Óðinn.

Grenlækur, eða öllu heldur farvegurinn. Lækurinn er nú þurr á …
Grenlækur, eða öllu heldur farvegurinn. Lækurinn er nú þurr á um ellefu kílómetra löngum kafla. Tjónið er mikið en mun ekki að fullu koma í ljós fyrr en í haust þegar sést hversu mikið af fiski hefur lifað af. Ljósmynd/Maros Zatko

En nú hefur í að minnsta í tvö ár verið opið fyrir allt mögulegt rennsli út á hraunið. Samt var þetta í góðu lagi í fyrra. 

„Núna hefur verið óvenju lítil úrkoma á svæðinu, í formi rigningar og það eru litlar eða engar snjófyrningar eftir til að bæta í eins og gerist flest ár. Úrkoman á svæðinu hefur verið svo lítil og það er stærsti hluti skýringarinnar núna. En Skaftárhlaupin með sínum framburði eru stóri skaðvaldurinn þegar við horfum á þetta í samhengi til lengri tíma."

Allir sem ræða þetta mál segja það flókið. Þannig viðurkennir Óðinn Þórarinsson að umrætt vatnasvæði sé eitt það flóknasta á landinu. Margir kraftar eru að verki á svæðinu og allir þeir starfshópar sem fjallað hafa um málið og fjöldi sérfræðingar hafa ekki náð að koma með svar sem leysir þetta mál. Mælingar ættu þó að vera grundvöllur allra ákvarðana.

Skaftárhlaup í fyrra. Aurframburður í þessum hlaupum er gríðarlegur og …
Skaftárhlaup í fyrra. Aurframburður í þessum hlaupum er gríðarlegur og það er einmitt stór hluti af vandamálinu. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir

Flókin uppspretta Grenlækjar

Hvaðan kemur vatnið sem myndar Grenlæk? Í skýrslu sem Náttúrustofa Suðurlands birti í lok ágúst árið 2019 og unnin var af þeim Pálínu Pálsdóttur og Rannveigu Ólafsdóttur er leitast við að svara þessari spurningu. „Vatnið í lindunum er miklu meira en en nemur úrkomu á hraunin. Lengi hefur verið vitað að vatn eykst í lindunum í kjölfar vatnavaxta í Skaftá og áflæðis á hraunin.“ Í skýrslunni er vitnað til þess að samanlagt vatnsmagn lindanna í Landbroti og Meðallandi er áætlað um fjörutíu rúmmetrar á sekúndu eða fjörutíu þúsund sekúndulítrar.*

Svo segir: „Afrennsli þessa grunnvatnsstreymis til austurs er einkum um Tungulæk, Grenlæk og Jónskvísl í Landbroti, en til suðurs um Steinsmýrarfljót, Eldvatn í Meðallandi og Fljótsbotn.“

Í skýrslunni er þetta grunnvatn sundurliðað eftir uppruna. Þannig er úrkoma á hraunin talin nema um tólf rúmmetrum, ketilvatn frá Skaftárkötlum blandað úrkomu og jökulbráð um tuttugu rúmmetrar á sekúndu og loks lekar frá Skaftá átta til tíu rúmmetrar á sekúndu. Samtals um fjörutíu rúmmetrar á sekúndu eins og fyrr segir.

*Hér er vitnað til heimilda. Annars vegar Freysteinn Sigurðsson 1997 og einnig Snorri Zóphóníasson 2015.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert