mbl | sjónvarp

Mun ekki framselja vald sitt til Felix

INNLENT  | 26. apríl | 16:30 
Athygli vakti þegar Baldur Þórhallsson lét þau orð falla að hann og Felix Bergsson, eiginmaður hans, myndu skipta með sér verkum, nái hann kjöri. Segir Baldur að misskilnings gæti vegna þeirra.

Athygli vakti þegar Baldur Þórhallsson lét þau orð falla að hann og Felix Bergsson, eiginmaður hans, myndu mögulega skipta með sér verkum, nái hann kjöri. Segir Baldur að misskilnings gæti vegna þessara ummæla sem rétt sé að leiðrétta.

mbl.is

Í stjórnarskránni er ekki gert ráð fyrir því að forseti framselji vald sitt eða verkefni með neinum hætti nema því sem kveðið er á um í 13. grein hennar. Þar segir að forseti „láti ráðherra framkvæma vald sitt.“

 

Stendur fyrir svörum

Baldur var spurður út í þessa ætluðu verkaskiptingu í Spursmálum.

Orðaskiptin má lesa hér að neðan en einnig hlýða á þau í spilaranum hér að ofan.

mbl.is

Mig langar til að spyrja þig af því að þegar þið tilkynntuð framboðið, þið Felix, þá var augljóst að þið teflið ykkur saman fram. Þú lést þau orð falla í kjölfarið að þið hafið í hyggju að skipta að einhverju leyti með ykkur verkum. Ég hef rætt við sérfræðinga í stjórnskipunarrétti sem telja að þarna séu menn á hálum ís. Við kjósum okkur forseta, hann á maka eða ekki, við höfum dæmi um hvorutveggja í sögunni. En hefur forsetinn leyfi til að skipta þeim verkum sem honum eru falin á einhvern annan, hvort sem það er maki hans eða þriðji aðili?

 

„Þarna er einhver misskilningur á ferðinni eða þá að ég hef ekki talað rétt. Það sem við höfum núna verið að tala um völd forsetans, formlegu völdin eru klárlega aðeins á höndum þess sem gegnir embættinu. Þegar kemur að alþjóðasamskiptunum, sem við höfum líka rætt aðeins um, þá er það algjörlega bara í höndum forsetans en ekki maka,“ segir Baldur.

Önnur mál á hendi maka forsetans

Hann bendir á að öðru máli gegni um samfélagsmál í víðum skilningi, m.a. menningarmálefnum.

mbl.is

„Þegar kemur hins vegar að umræðum í íslensku samfélagi, að ræða íslenskt samfélag, þá sjáum við hvernig makar forseta, núna ef ég nefni þau síðustu, Guðrúnu Katrínu, Dorrit og Elizu, hafa komið með öflugum hætti inn í samfélagsumræðuna. Dorrit er t.d. leiðandi sendiherra þegar kemur að leiðandi sendiherra þegar kemur að íslenskri menningu erlendis, þegar kemur að íslenskum bókmenntum, fer á allar helstu bókmenntahátíðir í heimi til að tala fyrir okkar menningararfi. Okkur Felix finnst einfaldlega best að koma hreint fram hvað þetta varðar. Þegar kemur að þessum málefnum innanlands, sem eru aftur, þverpólitísk en ekki flokkspólitísk, þá erum við að forgangsraða tilteknum málum. Felix myndi vinna með mér að þessum málum, sem eru velferð barna og ungmenna, mannréttindi allra í samfélaginu, og forsetinn á alltaf að standa þétt við bakið á þeim sem höllum fæti standa,“ segir Baldur.

 

Hann segir hann og Felix geta verið öflugt teymi. Reynsla þeirra af mannréttindabaráttu muni þar skipta sköpum.

„Og við erum einfaldlega í þessum málum að segja að við teljum okkur vera öflugt teymi með okkar bakgrunn í þessu, okkar mannréttindabaráttu. Felix er að vinna mikið að málefnum barna og ungmenna. Hann er búinn að ferðast í flesta grunnskóla landsins að fjalla um málefni barna og ungmenna. Ég vil taka þessa reynslu með okkur og bjóða upp á hana. Og við höfum draum, við eigum einn draum. Þegar kemur að málefnum barna og ungmenna er að við stöndum fremst meðal þjóða þegar kemur að málefnum barna og ungmenna.

Kalli hópa í Bessastaðastofu

Vill Baldur virkja Bessastaði sem umræðuvettvang, án þess þó að ganga á verkefni eða skyldur framkvæmda- eða löggjafarvaldsins.

„Rétt eins og við stöndum fremst meðal þjóða þegar kemur að jafnréttismálum, vissulega megi gera þar enn betur, þá finnst mér einfaldlega að forsetinn geti, og þá maki hans í þessu tilfelli, t.d. tekið þetta einu skrefi lengra, án þess að ganga á löggjafarvaldið eða framkvæmdavaldið, t.d. að kalla saman hópa í Bessastaðastofu til þess að ræða, alla þessa góðu ólíku hópa, sem eru t.d. að taka á aukinni vanlíðan ungs fólks, eru að taka á geðheilbrigði ungs fólks.“

Viðtalið við Baldur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 



Loading