mbl | sjónvarp

Sveik Steingrímur J. Sigfússon þjóðina?

INNLENT  | 26. apríl | 16:17 
Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi, vill ekki leggja mat á það hvort Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður VG hafi svikið þjóðina þegar hann samþykkti umsókn að ESB, þvert á gefin loforð.

Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi, vill ekki leggja mat á það hvort Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður VG hafi svikið þjóðina þegar hann samþykkti umsókn að ESB, þvert á gefin loforð.

Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála þar sem talið berst meðal annars að mögulegri Evrópusambandsaðild Íslands. Baldur hefur verið yfirlýstur stuðningsmaður þess að sótt verði um aðild að sambandinu.

 

Gekk gegn kosningaloforði

Þú hefur verið yfirlýstur stuðningsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið um langt skeið og er ekkert leyndarmál. Nú tók ríkisstjórnin sem settist að völdum 2009 þá ákvörðun að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið, með öllu því sem því fylgir og þú þekkir það jafn vel og ég, aðlögun að kerfinu sem menn gera, menn fækkuðu embættismönnum úti í Brussel og hófu þetta í raun aðlögunarferli þá þegar. Hefði ekki verið eðlilegt við þær aðstæður, sérstaklega í ljósi þess að annar meirihlutaflokkanna hafði heitið því í þingkosningunum 2009 að það yrði ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu ef þeir kæmust til valda, Vinstri grænir sem höfðu 14 þingsæti á móti 20 þingsætum Samfylkingarinnar. Hefði ekki verið lang eðlilegast að forsetinn gripi inn í og tryggði þá að þjóðin gæti sagt skoðun sína á því hvort það ætti að hefja þessar viðræður yfir höfuð?

„Forsetinn hefur ekki aðkomu að því...“

Forsetinn er áhrifamaður, þú segir að hann geti lagt línur...

mbl.is

„Já, hann hefur ekki áhrif á það þegar stjórnvöld fara að leita eftir samningum. Það er í raun bara tvennt sem kemur inn á borð forsetans, það eru annars vegar bara lög forsetans og svo alþjóðasamningar.“

Alltaf þjóðaratkvæðagreiðsla

En finnst þér að meirihlutinn í þinginu eigi að bera það undir þjóðina hvort það eigi að fara í viðræður áður en þær hefjast eða aðeins í lokin þegar aðlögunin hefur gengið um garð.

„Mér finnst til dæmis mjög gott, og ég held að ég fari rétt með að þeir flokkar sem eru hlynntir inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafi allir á sinni stefnuskrá að ef það ætti að taka upp aðildarviðræður að nýju þá ætti að gera það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta verða þá tvö skref, að ákveða að hefja aðildarviðræður að nýju og svo að samþykkja aðild. En ég tek þetta sem dæmi að þetta er svo mikil gjörbreyting á stjórnskipun landsins, ef við myndum ganga í Evrópusambandið að ég myndi sem forseti Íslands aldrei samþykkja að ganga í Evrópusambandið að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það má alveg líka velta fyrir sér hvort aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Baldur.

Opnaði dyr fyrir unga námsmenn

Hann bendir á að Vigdís Finnbogadóttir hafi lengi legið yfir spurningunni um hvort vísa ætti EES-samningnum í dóm þjóðarinnar.

„Ég hef skoðað það mjög ítarlega, bara í mínum fræðastörfum, tók ítarleg viðtöl við Vigdísi og ráðamenn frá þessum tíma. Vigdís komst að þessari niðurstöðu að kostirnir við EES væru meiri en gallarnir. Allt er umdeilanlegt. Það er stórt mál sem má vel velta fyrir sér hvort hefði átt heima hjá þjóðinni. Annað stórt mál, því við erum að ræða alþjóðasamninga það er aðildin að NATO árið 1949 sem er svo stórt mál að það fer miklu betur á því að þjóðin hafi lokaákvörðun í þessum málum.“

mbl.is

Hefði Vigdís átt að vísa EES-samningnum í þjóðaratkvæði?

„Það er ekki hægt að fara svona aftur í tímann og segja hefði átt eða hefði ekki átt að gera í ljósi sögunnar. Ég er bara að vísa til þess...“

Var þetta ekki mál sem átti þannig erindi við þjóðina að þjóðin hefði átt að hafa lokaorðið um það?

mbl.is

„Það má vel færa rök fyrir því. Vigdís lá hins vegar yfir málinu í marga mánuði og hún útskýrði í sérstakri yfirlýsingu, sem var aðeins í annað skiptið sem forseti sendir frá sér yfirlýsingu, um það af hverju hún samþykkti lögin. Og tók t.d. tillit til þess og sagði að hún meðal annars skrifaði undir lögin vegna þess að EES-samningurinn gefur ungu fólki tækifæri á að ganga inn í menntastofnanir í Evrópu.“

Áhöld um EES en ekki ESB og NATO

Óháð því, er það ekki þjóðin sem á að hafa sjálfsákvörðunarrétt um svona mikilvæg mál, eins og aðild að Evrópusambandinu, EES eða NATO?

„Klárlega NATO og t.d. Evrópusambandið og þess vegna finnst mér það mjög góð spurning hvort það hefði ekki átt að vera þannig líka með EES-samninginn á sínum tíma.“

Þú nefnir reyndar, og ég verð að lesa þetta upp varðandi Evrópusambandsaðildina, úr þingræðu frá 24. maí 2012 segir þú...

mbl.is

„Gaman að rifja þetta upp.“

Þetta eru góðar ræður. Búinn að lesa þær allar. „Skyndilega er eitthvað komið á línunna og þéttingsfast tekið í. En veiðimaður óttast það svo mjög að sprungið dekk sé á endanum en ekki stórlax að hann slítur á línuna í óðagoti en landar ekki aflanum. Það er sorglegt að horfa upp á það að hluti þingheims vill koma heim með öngulinn í rassinum. Í því felst hvorki djörfung né dirfska. Við þurfum að ljúka þessum aðildarviðræðum, við verðum að sjá hvað stendur til boða. Þá fyrst er hægt að greiða atkvæði um aðildarsamning.“

Leggur ekki mat á möguleg svik

Varst þú að fullu sáttur við að þessi meirihluti, sem þú sast á þingi fyrir, skyldi fara í þessa vegferð án þess að spyrja þjóðina í ljósi þess að Vinstri grænir voru alfarið, Steingrímur J. lofaði því kvöldið fyrir kosningar að það yrði ekki farið í aðildarviðræður ef hann myndi mynda meirihluta. Voru það ekki svik við þjóðina?

„Ég ætla ekkert að fara að meta það hvort Steingrímur J. hafi svikið þjóðina eða ekki. En þetta er það stórt og mikið mál. Og í ljósi þessarar reynslu þá er mjög eðlilegt að þessi spurning komi upp. Og ég hef lengi verið á þeirri persónulegu skoðun að þjóðin eigi að hafa lokaorðið í þessu máli. Burtséð frá minni persónulegu skoðun í málinu, eins og kemur klárlega fram í þessari skemmtilegu lýsingu sem þú ert með þarna.“

Já. Þetta er mjög inspírerað.

„Já, ég er að segja að þjóðin eigi að hafa lokaorðið og er þá vonandi algjörlega samkvæmur sjálfum með í því sem ég segi í dag. Þjóðin á að hafa lokaorðið í þessu máli.“

 Viðtalið við Baldur Þórhallsson má sjá og lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

 

 

Loading