Kvikusöfnunin komin í rúma 16 milljón rúmmetra

Nýtt hraun þekur hluta Reykjanesskagans eftir gos síðustu ára.
Nýtt hraun þekur hluta Reykjanesskagans eftir gos síðustu ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurstofan hefur uppfært hættumat sitt vegna þess að auknar líkur eru taldar á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga. Kvikusöfnunin er orðin 16 milljón rúmmetra samanborið við 8-13 milljón rúmmetra og rís land með stöðugum hætti við Svartsengi.

Reynslan úr Kröflueldum sýnir að þegar kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting svo gos hefjist.   

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. 

Sundhnúkagígaröðin líklegust 

Þar segir jafnframt að mestar líkur séu að gos komi upp í Sundhnúkagígaröð og að fyrirvari gæti orðið mjög stuttur. Þar segir ennfremur að 80 skjálftar hafi mælst í kringum kvikuganginn í gær. Flestir undir 1,0 að stærð.

„Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúkagígaröðina.

Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en alls hafa um 16 milljónir rúmmetra að kviku bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá 16. mars, þegar að síðast gos hófst,“ segir í tilkynningu. 

Meiri þrýsting þarf til 

„Reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert