Krefjast nýrra lausna í bílastæðamálum

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur leggja til úrbætur í bílastæðamálum
Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur leggja til úrbætur í bílastæðamálum Sigurður Bogi Sævarsson

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur skora á Reykjavíkurborg að koma til móts við íbúa svæðisins varðandi bílastæðamál.

Þetta kom fram í ályktun aðalfundar íbúasamtakanna.

Skammtímakort fyrir iðnaðarmenn

Borgaryfirvöld eru hvött til þess að íbúum verði gert kleift að leggja á fleiri en einu svæði eða að stækka svæðin. Erfitt geti reynst fyrir íbúa sem búa á mörkum íbúakortasvæða að nýta sér kortin, þar sem þau gilda einungis á mjög afmörkuðu svæði.

Íbúasamtökin vilja einnig að hægt verði að kaupa íbúakort til skamms tíma, sem nýtast muni fyrir aðkeypta vinnu og fyrir gesti íbúa. Fram kemur í máli samtakanna að iðnaðarmenn, sem geymi nauðsynleg tól og tæki í bílum sínum, veigri sér við að taka að sér viðgerðir í heimahúsum í miðbænum vegna bílastæðavanda. Dæmi eru um að iðnaðarmenn hafi afboðað komu sína vegna þessa.

Sambærilegar götur í sama verðflokki

Samtökin vekja líka athygli á þeirri togstreitu sem myndast geti á milli ólíkra íbúðagatna. Sem dæmi sé Grettisgatan skilgreind sem gjaldsvæði P1 en næstu götur Njálsgata og Bergþórugata sem P2 og P3. Telja íbúasamtökin eðlilegra að sama gjald væri greitt á sambærilegum íbúðagötum.

Sömuleiðis kvarta íbúðasamtökin undan því að íbúar séu sektaðir fyrir notkun á bílastæðum innan borgarmarka, sem mbl.is hefur fjallað nokkuð um. Borgin ber fyrir sig að sektað sé með hliðsjón af skipulagsuppdráttum þar sem stæðin séu ekki viðurkennd. Ekki sé tekið mið af því að fólk hafi nýtt sér bílastæði á eigin lóð áratugum saman án nokkurrar aðfinnslu borgaryfirvalda fram til þessa.

Lítið gert í baráttu gegn veggjakroti

Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur kvartar sömuleiðis undan aðgerðarleysi borgaryfirvalda í því að berjast gegn veggjakroti, sem látið sé að mestu afskiptalaust. Telja samtökin bestu forvörnina felast í því að fjarlægja veggjakrot samstundis.

Auk þessa, hvetja samtökin borgina til þess að efla sorpþjónustu í miðborginni. Rusl sé mjög sýnilegt á opnum svæðum og víða megi sjá yfirfullar sorptunnur við fjölmargar Airbnb-íbúðir hverfisins. Ályktunin bendir á að þessu fylgi rottugangur, sjónmengun, sóðaskapur, ólykt og ásókn máva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert