Tilbúinn að verða matvælaráðherra ef býðst

Bjarni segist tilbúinn að takast á við öll þau verkefni …
Bjarni segist tilbúinn að takast á við öll þau verkefni sem honum sé treyst fyrir. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þingflokkurinn fundar auðvitað í dag en við fundum eftir þörfum og förum yfir málin. Nýr formaður flokksins leiðir þá vinnu og er í samtölum við hina formennina,“ segir Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, í samtali við mbl.is.

Spurður hvort flokkurinn geri kröfur um einhver ráðuneyti og þá hvaða ráðuneyti þau sækist helst eftir segir Bjarni að ekki sé tímabært að svo stöddu að svara neinu í þeim efnum.

„Ég held að mestu máli skipti núna, í samtölum formannanna, málefnin og hvernig við ætlum að klára þau mál sem við leggjum áherslu á. Við viljum sjá að það sé öflug ríkisstjórn sem komi þeim málum fram sem við þurfum fyrir þjóðina og landið. Hvernig menn skipta með sér verkum í þeirri vinnu er svo annað en númer eitt í mínum huga eru málin,“ segir Bjarni.

Nýr og öflugur formaður tekinn við

Tekur hann fram að í fullu gildi sé stjórnarsáttmáli sem verið sé að fylgja eftir og varðandi ráðuneytin komi í ljós síðar, ef menn haldi samtalinu áfram, hvernig lagt verði upp með framhaldið. 

„Að sjálfsögðu hljótum við að leggja upp með að stýra öflugum ráðuneytum og það liggur svo sem ekkert fyrir heldur með næsta forsætisráðherra sem gæti þess vegna orðið okkar formaður, Guðmundur Ingi, eins og hver annar. Það hlýtur allt að vera inni í myndinni.

Við erum komin með nýjan og öflugan formann sem tekur núna við keflinu og leiðir okkur og flokkinn áfram. Þannig að við erum bara í góðum gír þar,“ segir Bjarni.

Bendlaði Bjarna við matvælaráðuneytið

Odd­ný G. Harðardótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar, sagði í Facebook-færslu í gær að hún teldi að Bjarni kæmi nýr inn í ríkisstjórnina og yrði næsti matvælaráðherra.

Inntur eftir því hvort það kæmi til greina af hans hálfu segist Bjarni tilbúinn að sinna því eins og öðrum þeim verkefnum sem honum séu falin og gera það vel.

„Hvaða verkefni sem það eru, myndi ég leggja minn metnað í það. Þannig að maður getur ekki sagt neitt annað við því en maður vinnur þau verkefni með trúmennsku sem manni er treyst fyrir en auðvitað þekkir maður betur til sums staðar en annars staðar.“

Bjarni með BA-próf í hagsögu með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Árið 1996 lauk hann meistaraprófi í fiskifræði og stærðfræðilegri tölfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum. 

Málefnin í forgangi

En ertu bjartsýnn á að ríkisstjórnin komist að samkomulagi fljótlega?

„Við skulum bara sjá. Eins og ég sagði þá erum við með stjórnarsáttmála sem er í fullu gildi og þar veltir ekki allt á einstökum persónum heldur virkilega á málunum sem við viljum ná fram og ná árangri hér í landinu með. Þannig að ég treysti því að það sé unnið út frá því svo ég er þokkalega bjartsýnn.

En eins og fyrir okkar part þá viljum við sjá áfram sterka stöðu okkar inni í stjórnarsamstarfinu. Við erum með nýjan, öflugan formann sem ég hef fulla trú á að muni leiða okkur farsællega áfram í þessu og ekki síst í ríkisstjórnarsamstarfi,“ segir Bjarni að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert