Erlendir miðlar fjalla um Katrínu

Forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur hefur vakið athygli út fyrir landsteinana.
Forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Ljósmynd/Samsett

Erlendir fjölmiðlar hafa veitt forsetaframboði Katrínar Jakobsdóttur töluverða athygli. Hafa miðlar eins og Reuters, Deutchlandfunk, China Daily, hið færeyska Kringvarp og finnska Yle verið þar á meðal.

„Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, tilkynnti um afsögn sína á föstudag og sagðist ætla að bjóða sig fram til forseta,“ segir á Reuters og því bætt við að ekki sé ljóst hver taki við af henni sem forsætisráðherra, starfi sem hún hafi gegnt síðan síðla árs 2017.

Velta upp ýmsum spurningum

Finnski miðillinn Yle segir marga hafa hvatt Katrínu til framboðsins og að forsetakosningar verði haldnar 1. júní. Þá finni Íslendingar fyrir miklum efnahagslegum þrengingum þar sem landið glími við verðbólgu og háa vexti.

Frændur okkar í Færeyjum velta því hins vegar fyrir sér hvað verði um ríkisstjórnarsamstarfið eftir að Katrín segi af sér og deila jafnframt myndbandinu af því þegar Katrín tilkynnti um framboðið.

Starfið að mestu hátíðlegt

„Stjórnmálakonan skýrði frá því að hún hefði ákveðið fyrir nokkru að bjóða sig ekki fram í næstu alþingiskosningum. Margir hvöttu hana til að bjóða sig fram til forseta,“ segir á þýska miðlinum Deutschlandfunk.

Þar segir einnig að Guðni Th. Jóhannesson hafi tilkynnt í nýársræðu sinni að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs. 

Þá segir á flestum miðlunum að starf forseta Íslands sé að mestu hátíðlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert