Mikil snjóflóðahætta á Austfjörðum

Ekki er talin mikil hætta á snjóflóðum í byggð.
Ekki er talin mikil hætta á snjóflóðum í byggð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil snjóflóðahætta er á Austfjörðum og líklegt er að snjóflóð falli víða í bröttum brekkum. Töluvert hefur snjóað og skafið fyrir austan síðustu daga, en lítil binding orðið milli snjólaga. 

Þetta segir Sveinn Brynjólfsson, á snjóflóðavakt hjá Veðurstofu Íslands, spurður hvað það sé sem valdi því að mikil hætta, litakóðuð rauð á vef Veðurstofunnar, sé talin á snjóflóðum á Austfjörðum. Mesta hættan er metin á fjallendi og er ekki talin ógn við byggð. 

„Það getur verið hættulegt fyrir fólk sem er á skíðum og sleðum um fjallendi en þetta er ekki það mikið magn að við teljum þetta ekki ógna byggð.“

Stöðuleiki mældur milli snjólaga 

Spurður hvers vegna einungis sé talin mikil hætta á snjóflóðum á Austfjörðum, en ekki Norðurlandi þar sem nokkur snjóflóð hafa fallið síðustu daga, svarar Sveinn að allt sé þetta metið út frá þeim athugunum sem gerðar eru. 

„Það eru gerðar svona stöðugleikaprófanir. Við gröfum holu og prófum stöðugleikann á þessum lögum, þar sem lögin mætast í snjónum,“ segir hann og útskýrir að á Austfjörðum hafi verið mjög léleg binding milli laga. 

„Þess vegna var ákveðið að fara upp á rauðan þó það sé ekki talin hætta í byggð heldur einungis fyrir þá sem eru á ferðinni á fjallvegum,“ segir Sveinn um hættustigið á Austfjörðum.

Fylgjast vel með völdum vegum 

Aðspurður segir hann eitt snjóflóð hafa fallið yfir Ólafsfjarðarveg í gær á meðan vegurinn var lokaður um tíma og eitt yfir veginn í Ljósavatnsskarði. Um miðlungsstór snjóflóð var að ræða, segir Sveinn og bætir við að snjóflóðavaktinni hafi ekki borist upplýsingar um fleiri flóð í gær. Þá benda mælingar ekki til þess að snjólögin fyrir norðan séu mjög veik. 

„Veðrið var það slæmt í gær að við bjuggumst alveg við því að það yrðu miklu fleiri snjóflóð fyrir norðan. En af því að við fréttum ekki af fleiri flóðum þá héldum við okkur bara við þennan appelsínugula lit í spánni sem hefur verið yfir helgina.“

Er einhver staður sem þið fylgist betur með í dag heldur en annar? 

„Nei,nei, það er bara allt frá Vestfjörðum, Norðurland og Austfirðirnir sem við erum með augun á, en þetta lítur ekkert illa út í spánni. Það er svona helst að það geti verið hætta á einhverjum vegum,“ segir hann og bætir við að grannt sé fylgst með þeim vegum. 

Um er að ræða veginn í Fagradal fyrir austan, Siglufjarðarveg, Ólafsfjarðarveg, og veginn um Ljósavatnsskarð auk Súðavíkurhlíðar, Flateyrarvegar og Raknadalshlíðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert