Meira en sjö klukkustundir á leið heim frá Akureyri

Færðin hefur verið slæm fyrir norðan síðustu daga.
Færðin hefur verið slæm fyrir norðan síðustu daga. Ljósmynd/Landsbjörg

Vinkonurnar Júlía Eyfjörð Jónsdóttir og Steinunn Bragadóttir gera ráð fyrir að heimferðin frá Akureyri og í höfuðborgina taki að minnsta kosti sjö klukkustundir. Þær eru báðar að norðan og segja að ferðin suður sé án efa sú lengsta sem þær hafa upplifað. 

Þungfært hefur verið á Tröllaskaga í dag þar sem Öxnadalsheiði er lokuð, en er blaðamaður ræddi við vinkonurnar voru þær nærri Blönduósi rétt fyrir klukkan 19. 

Ferðin frá Akureyri í Varmahlíð tók um fjórar klukkustundir, en undir eðlilegum kringumstæðum er um tæplega klukkustundar akstur. 

„Þetta gekk samt alveg ágætlega,“ segir Júlía.

Biðu í korter við Múlagöng

Vinkonunum tókst að komast að Múlagöngum áður en byrjað var að stýra umferð í gegnum þau, en göngin eru einbreið. 

Þær segjast hafa beðið í tæplega korter án þess að umferðin haggaðist. 

„En það var fólk á undan okkur sem við vorum rétt á eftir sem beið í 40 mínútur. Við sluppum ágætlega þar.“ 

Þá sluppu þær einnig ágætlega er kom að Strákagöngum sem eru líka einbreið. 

Bílaröðin nær svo langt sem augað eygir.
Bílaröðin nær svo langt sem augað eygir. Ljósmynd/Bjarki Reynisson

Á tíu kílómetra hraða

Mjög blint var nyrst á Tröllaskaganum og voru allir með háuljósin á, að þeirra sögn. 

„Við vorum örugglega þarna á 10 [kílómetra hraða] í einhvern hálftíma að reyna að sjá næstu stiku og vona að það kæmi enginn á móti.“

Þær segjast þó alltaf hafa þokast hægt og rólega áfram. „Þó þetta hafi tekið langan tíma.“

Fegnar að komast á klósettið

Eftir Hofsós skánaði skyggnið og færðin mikið að þeirra sögn. Alveg þangað til var þó mjög blint. 

Vinkonurnar voru mjög fegnar þegar þær komust í Varmahlíð þar sem að þær náðu loks á salernið. 

Ekki þurft að fara þessa leið áður 

Júlía og Steinunn segja að þær hafi aldrei áður þurft að keyra Tröllaskagann til þess að komast aftur í bæinn. 

„Það er frekar að ef að [Öxnadals]heiðin er lokuð þá er bara allt lokað.“

Þá minnast þær á að það hafi verið sérstakt hvað það var blint miðað við að ekki er um fjallvegi að ræða, heldur sé leiðin um Tröllaskaga við sjó. 

Vinkonurnar segja að það hafi verið mjög blint á tímabili.
Vinkonurnar segja að það hafi verið mjög blint á tímabili. Ljósmynd/Landsbjörg

Vanar að keyra í snjó

Þær segja að nokkrir bílar hafi stoppað á leiðinni við sveitabæi þar sem þeir þorðu ekki að halda áfram. 

„Ef maður er ekki vanur að keyra í svona hefur þetta örugglega verið mjög óhugnanlegt, en við bjuggum að reynslunni að vera vanar að keyra í snjó.“

Þær segjast hafa séð einn lögreglubíl á leiðinni en engar björgunarsveitir. 

Júlía og Steinunn segja að lokum að færðin hafi ekki verið „hræðileg alla leiðina“ en að þeim hafi verið hætt að lítast á blikuna á köflum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert