Syðsti gígurinn að deyja út

Nú gýs aðeins úr tveimur gígum. Mynd tekin föstudaginn langa, …
Nú gýs aðeins úr tveimur gígum. Mynd tekin föstudaginn langa, 29. mars 2024. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

„Það er mjög líklegt að minnsti gígurinn, syðsti gígurinn af þessum þremur virku, sé við það að deyja eða hafi dáið út í nótt. Það er alla vega ekkert í honum.“

Þetta segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Lögregla reyndi að kanna stöðuna á gígnum með drónaflugi í gær og sást ekkert í honum. Reyndar voru aðstæður erfiðar sökum hvassviðris, að sögn Salóme.

Tveir þokkalega virkir

„Hinir tveir eru þokkalega virkir, sérstaklega þessi nyrsti sem er virkastur og stærstur,“ segir Salóme.

Hún segir að hraunflæði virðist í sjón vera svipað og hefur verið en erfitt sé að segja um það nákvæmlega því ekki hefur verið farið í mælingar með gervitunglum um páskana.

„Þetta virðist vera svipað og síðustu daga, kannski aðeins minna ef maður gerir ráð fyrir að þessi [syðsti gígurinn] sé farinn“.

Mældist ekki mikið gas í nótt.

Ekki mældist mikið gas í nótt. Áfram er norðaustanátt og má því búast við svipuðum aðstæðum og síðustu daga, að sögn Salóme.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert