Hvað gerist ef hraunið rennur út í sjó?

Hraun úr norðurtungunni rennur í vesturátt og hefur þegar farið …
Hraun úr norðurtungunni rennur í vesturátt og hefur þegar farið yfir Grindavíkurveg eins og í síðasta gosi. Eldgosið er það kröftugasta á síðustu þremur árum á Reykjanesskaganum. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Öðruvísi hætta stafar af því að hraun fari í sjó heldur en þurft hefur að eiga við í síðustu eldgosum.

„Þar getur staðbundið myndast saltsýra og einnig gjóska og aska mögulega. Það er verið að fara yfir þau viðbrögð með almannavörnum. Við þurfum bara að bíða og sjá hver framvindan verður í kvöld,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá upp úr miðnætti þá gæti hraun að óbreyttu runnið til sjávar og þá stefnt bænum Hrauni í hættu. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að reyna að verja bæinn með varnargörðum.

Sjáum hvað gerist í nótt

Einar segist ekki þora að fullyrða hvort að flugsamgöngum stafi hætta af því ef hraunið endi í sjó. Líklega verði áhrifin staðbundin, og þá helst á viðbragðsaðila á svæðinu.

„Það getur myndast hætta á að það lendi gjóska þarna staðbundið innan þriggja kílómetra. Svo sjáum við hvað gerist í nótt, hvort að þetta færist meira í suður eða það sé farið að draga raunverulega úr þessu.“

Á myndinni má sjá hvernig hrauntungan hefur farið yfir Grindavíkurveg …
Á myndinni má sjá hvernig hrauntungan hefur farið yfir Grindavíkurveg rétt norðaustan við Svartsengi. Í fjarska má svo sjá hvar sprungan og í suðurátt hraunið teygir sig í átt að Grindavíkurbæ, en hraunið nálgast bæinn óðfluga. mbl.is/Hörður Kristleifsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert