„Mikill gleðidagur fyrir samninganefnd Eflingar“

Sólveig Anna sést hér ásamt öðrum forsprökkum Breiðfylkingarinnar í Safnahúsinu …
Sólveig Anna sést hér ásamt öðrum forsprökkum Breiðfylkingarinnar í Safnahúsinu þar sem ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar til stuðnings kjarasamningunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mikill gleðidagur fyrir samninganefnd Eflingar,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þegar mbl.is tók hana tali í Karphúsinu að lokinni undirskrift nýrra kjarasamninga hjá breiðfylkingu stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. 

„Ég finn fyrir létti, ánægju og stolti fyrir hönd samninganefndar Eflingar. Við höfum beðið lengi eftir því að undirrita kjarasamning fyrir okkar fólk og við teljum að við höfum náð góðum árangri.“

Spurð um mikilvægi þess að gera samning til langs tíma eins og nú er gert segir Sólveig að það hafi verið markmið hjá Eflingarfólki. 

Markmiðið var að gera langtíma samning

„Síðasta vetur var markmið Eflingar að gera hér langtíma samning. Við höfum ávallt lagt áherslu á að stöðugleiki geti ríkt í lífi verkafólks og láglaunafólks. Að fólk viti hvað er að fara að gerast, ekki bara frá einum mánuði til þess næsta, heldur geti gert langtíma áætlanir. Við erum ánægð með það og mjög ánægð með þá leiðréttingu sem við náum varðandi kjör ræstingafólks. Í þessari samningsgerð var eitt af megin markmiðum okkar að ná árangri fyrir þau og það höfum við gert,“ segir Sólveig og bætir því við að aðkoma stjórnvalda hjálpi til. 

 „Einnig erum við ánægð með það sem við fáum í gegnum tilfærslukerfin og það kemur okkar fólki sérlega vel.  Eins og allir bindum við auðvitað miklar vonir við að verðbólga fari hér hratt að hjaðna og vextir lækki í kjölfarið,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir.

Sólveig Anna Jónsdóttir við undirritun í Karphúsinu.
Sólveig Anna Jónsdóttir við undirritun í Karphúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert