Óttast ekki ringulreið

Helga segir rýmingarnar hingað til hafa gengið vel svo hún …
Helga segir rýmingarnar hingað til hafa gengið vel svo hún óttast ekki að það skapist einhver ringulreið í Bláa lóninu ef rýma þarf að nýju. Samsett mynd

„Við fylgjum yfirvöldum í einu og öllu en hvað okkur varðar erum við alltaf að rýna í okkar viðbragðsáætlanir til að tryggja faglegt viðbragð komi til rýmingar.“

Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, innt eftir því í samtali við mbl.is hvort verið sé að gera sérstakar ráðstafanir hjá fyrirtækinu þessa dagana og þá hvort komi til greina að loka vegna yfirvofandi hættu á eldgosi. 

Nægur tími til rýmingar

Segir Helga að líkt og komið hafi fram í fjölmiðlum og hjá Veðurstofunni geri vísindamenn ráð fyrir að líklegast gjósi í Sundhnúkagígaröðinni og óttast hún því ekki að slys verði á fólki eða að ringulreið skapist komi til rýmingar hjá Bláa lóninu. 

„Við erum ekki á sprungusvæði og þessi sprunga er í um þriggja kílómetra fjarlægð frá okkur svo í ljósi jarðfræðilegrar stöðu, og með reglulegri og góðri vöktun vísindamannanna, þá vitum við að komi til eldgoss á þessu svæði að þá munum við hafa góðan tíma til að rýma okkar starfsstöðvar.

Svo má ekki gleyma því að vísindamenn hafa sagt að sú hætta sem sé helst til staðar á okkar svæði sé vegna hraunrennslis. Þannig að út frá faglegu mati, reglulegu sambandi við vísindamenn og stöðu Svartsengissvæðisins sem slíks að þá er hættumatið þess eðlis að við erum við öllu búin að bregðast við.“

Fyrirsjáanleikinn orðinn meiri

Spurð að því hvort ekki sé lýjandi að vera sífellt í þeirri stöðu að þurfa mögulega að rýma starfsstöðvarnar vegna hættu á eldgosi segir Helga að fyrst og fremst sé um að ræða nýjan veruleika sem þurfi að aðlagast.

„Starfsólkið er yfirvegað og menn sýna stöðunni auðvitað skilning. Í því ljósi hefur skipt miklu máli að fyrirsjáanleikinn og skýrleikinn frá yfirvöldum er alltaf að verða meiri og betri. Við erum alltaf að læra og það að vera í góðu og öflugu samtali og samstarfi við yfirvöld skiptir sköpum enda gott og mikilvægt að geta reitt sig á þessa góðu sérfræðinga.“

Reynslunni ríkari eftir fyrri rýmingar

Að sögn Helgu hafa fyrri rýmingar gengið vel en að meðaltali gista um 100-150 gestir á hótelinu.

„Það er alltaf eitthvað sem við lærum en í stórum dráttum þá hafa þessar rýmingar gengið vel. Við erum alltaf að bæta ferlana en teljum okkur við öllu búin enda búin að undirbúa rýmingu komi til þess.“ 

Þá segir hún að starfsfólkið hafi sérstaklega fundið fyrir því hversu þakklátir gestirnir séu fyrir að vera vel upplýstir um stöðu mála. 

„Það er mikilvægt að sjá hversu gestum okkar hefur þótt gott að vera vel upplýstir því komi til rýmingar kemur hún þeim ekki á óvart því þeir vita hverju má búast við. Það eitt og sér skiptir auðvitað alveg gríðarlega miklu máli,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert