Fiskislor um allt þilfar Herjólfs

Aðgerðir um borð í skipinu tóku rúma klukkustund að sögn …
Aðgerðir um borð í skipinu tóku rúma klukkustund að sögn Harðar Orra Grettissonar, framkvæmdastjóra Herjólfs. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum að sigla frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar þegar önnur hliðin á þessum flutningavagni gaf sig með þeim afleiðingum að það fóru kör út um vagninn og það sem var í körunum fór eðlilega á bíladekkið.“

Þetta segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs, í samtali við mbl.is, spurður út í óhappið sem varð fyrr í kvöld um borð í skipinu þegar fiskislor fór út um allt þilfar skipsins.

Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs.
Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs.

Tók rúman klukkutíma að þrífa bíldekkið

Þá segir Hörður aðgerðir hafa gengið vel þó þær hafi tekið tíma og voru farþegar á leið til Eyja látnir vita af töfinni. 

„Við höfum verið kannski svona í rúman klukkutíma að þrífa þetta. Skipið átti að leggja af stað frá Þorlákshöfn 19:45 en við vorum að vonast til að geta farið núna um 21:30. Ég er ekki með það staðfest hvort hann sé lagður af stað en þetta er alla vega á lokametrunum núna á meðan ég er að tala við þig.“

Óhappið átti sér stað þegar önnur hliðin á flutningavagni gaf …
Óhappið átti sér stað þegar önnur hliðin á flutningavagni gaf sig. Ljósmynd/Aðsend

Ekki um að ræða stórt tjón

Spurður hvort um sé að ræða stórt tjón segir Hörður að fyrst og fremst sé um að ræða tjón á flutningavagninum. 

„Við höfum ekki fengið fréttir af öðru tjóni enda var ekki mikið af öðrum bílum á bíladekkinu og flutningavagnarnir voru á öðrum stað í skipinu en bílarnir í þessari ferð,“ segir hann.

„Slík óhöpp koma sem betur fer ekki oft fyrir en þetta hefur alveg gerst áður.“

Slík óhöpp eru ekki algeng en hafa gerst áður að …
Slík óhöpp eru ekki algeng en hafa gerst áður að sögn Harðar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert