Ljósastýring í lag fyrir síðdegisumferðina

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, á von á að vinnu …
Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, á von á að vinnu við tengingu á skynjarabúnaði í ljósastýringu umferðarljósa á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar ljúki fyrir síðdegisumferðina í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lokið verður við tengingu á skynjarabúnaði í ljósastýringu umferðarljósa á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar í dag. Nýju stýrispjaldi var komið fyrir um miðjan janúar.

Þetta segir Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

„Ég á von á því að vinnu ljúki fyrir síðdegisumferðina í dag.“

Guðbjörg segir að strax í gær hafi ástandið verið orðið betra og að hún voni að það verði enn betra í dag.

„Ekki hægt að kippa inn verktaka“

Mönnunarvandi skýrir þennan langa verktíma að sögn Guðbjargar. Meðal annars hafi veikindi sett strik í reikninginn en fámennur hópur manna hefur sérfræðiþekkingu til að vinna í ljósastýringarbúnaði úti á götu. Þannig segir hún að borgin geti ekki útvistað verkefnunum.

„Menn fara á námskeið hjá söluaðilum þessa búnaðar þannig að það er ekki eins og hægt sé að kippa inn einhverjum verktaka í verkefni sem þessi.“

„Höfum verið að slökkva elda“

Aðspurð segir Guðbjörg að vandamálið við ljósastýringuna á umræddum gatnamótum hafi verið í forgangi en svo komi upp önnur vandamál sem þurft hefur að taka fram fyrir í forgangsröðinni. Forgangsröðun sé mat á hverjum tíma en ýmis önnur verkefni hafi komið upp. „Mannskapurinn réði ekki við meira.“

Hún segir alltaf vera í hæsta forgangi að halda umferðarljósum virkum og þá hafi tíðarfarið skapað aðstæður þar sem rjúka þurfti til og laga umferðarljósastólpa sem keyrðir voru niður. Vinna við gatnamótin hafi staðið yfir en einfaldlega ekki tekist að klára.

„Þetta er búið að vera svolítið þannig að við höfum verið að slökkva elda.“

Umferðarþungi við Sæbraut hefur vakið talsverða athygli undanfarnar vikur. Nú …
Umferðarþungi við Sæbraut hefur vakið talsverða athygli undanfarnar vikur. Nú er unnið að lagfæringu í ljósastýringu sem ætti að laga ástandið talsvert. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kærumál tafið útboðsferli

Guðbjörg viðurkennir að ekki sé nægur sveigjanleiki til staðar í kerfinu í dag en segir að verið sé að skoða hvernig hægt sé að auka hann svo hægt verði að takast á við vandamál af þessum toga.

Spurð út í eðli bilunarinnar í ljósastýringunni segir Guðbjörg að einfaldlega sé um gamlan kassa að ræða sem hafi þurft að uppfæra.

Hún segir gamla kassa víðar í borginni en engin viðlíka vandamál tengd þeim enn sem komið er.

„Við höfum í nokkur ár verið að reyna að koma endurnýjun búnaðar í ferli en okkur hefur gengið illa að fjárfesta í nýjum búnaði sökum kærumála en ég held að við séum að komast í gegnum það.“

Vísar Guðbjörg til úr­sk­urða kær­u­nefnd­ar útboðsmá­la og segir innlenda birgja hafa fundið að útboðsferlinu með einhverjum hætti á víxl sem geri að verkum að ferlið tefjist.

Segir hún búnað frá fleiri birgjum vera kominn í virkni á höfuðborgarsvæðinu. „Þannig að ég á von á að þetta fari að ganga betur núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert