Kollhnís, Urta og Farsótt verðlaunaðar

mbl.is/Kristinn Magnússon

Arndís Þórarinsdóttir, Gerður Kristný og Kristín Svava Tómasdóttir hlutu fyrir stundu Fjöruverðlaunin 2023, bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi er þau voru afhent í 17. sinn við hátíðlega athöfn, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Arndís hlaut verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir skáldsöguna Kollhnís sem Mál og mennig gefur út;  Gerður Kristný í flokki fagurbókmennta fyrir ljóðabókina Urta sem Mál og menning gefur út og Kristín Svava í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 sem Sögufélag gefur út. 

Gleðst yfir góðum viðtökum

„Ég er afar glöð yfir þeim góðu viðtökum sem Kolhnís hefur hlotið, enda var þetta saga sem stóð mér mjög nærri og mér fannst mikilvægt að segja. Á sama tíma er ég einlæglega undrandi, því hinar tvær bækurnar sem voru tilnefndar í ár eru báðar algjörlega frábærar,“ segir Arndís Þórarinsdóttir. Auk Kollhníss voru tilnefndar Bronsharpan eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur og Héragerði. Ævintýri um súkkulaði og kátínu eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur.

Arndís Þórarinsdóttir.
Arndís Þórarinsdóttir.

Í dómnefnd barna- og unglingabókmenntir sátu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir lektor í íslensku og íslenskufræðingarnir Brynja Helgu Baldursdóttir og Guðlaug Richter. Í umsögn þeirra segir: „Í Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur er hinn ungi Álfur fimleikastrákur aðalsöguhetjan og sögumaðurinn. Eftir því sem frásögn hans vindur fram kemur í ljós að sjónarhorn Álfs er ekki mjög áreiðanlegt enda neitar hann að horfast í augu við að litli bróðir hans sé einhverfur, að frænka hans eigi við fíknivanda að etja og að besti vinur hans sé lesblindur. Höfundur leikur fimlega á allan tilfinningaskalann og teflir fram sögumanni sem eignast hugi og hjörtu lesenda á öllum aldri. Sagan er í senn áhrifamikil, skemmtileg og spennandi en fyrst og fremst full af hlýju og mennsku.“

Urtunni líður vel í fjörunni

„Þessi viðurkenning kom mér ánægjulegt á óvart, enda tilnefnd með flinkum rithöfundum sem hlutu mikið lof fyrir sínar bækur,“ segir Gerður Kristný. Auk Urtu voru tilnefndar skáldsögurnar Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur og Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur. 

Gerður Kristný
Gerður Kristný mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dómnefnd fagurbókmennta sátu bókmenntafræðingarnir Dagný Kristjánsdóttir og Júlía Margrét Sveinsdóttir og sagnfræðingurinn Kristín Ástgeirsdóttir. Í umsögn þeirra segir: „Ljóðmælandi Urtu eftir Gerði Kristnýju er kona sem býr við nyrsta haf. Lífsbaráttan er hörð, vetur herja með hafís og kulda. Maðurinn deyr, barn deyr og önnur áföll fylgja en konan og börn hennar gefast aldrei upp. Þau þrauka. Konan hjálpar urtu að kæpa, mörk milli manns og dýrs, menningar og náttúru hverfa í þessari göldróttu bók. Textinn er meitlaður, ljóðin hefðbundin í formi með stuðlum og innrím sem minnir á forna bragarhætti. Það undirstrikar einnig tímaleysi og skírskotun verksins til þeirrar stöðugu lífsbaráttu sem er hlutskipti manna og dýra.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Gerður Kristný einstaklega gaman að lesa fallegu umsögn dómnefndar um Urtu, þar sem stóru orðin séu ekki spöruð. „Þetta eru ákaflega sterk og fögur ummæli. Mér finnst líka gaman að bók sem heitir Urta fá verðlaun sem eru kennd við fjöru, því þar líður urtunni svo vel,“ segir Gerður Kristný og tekur fram að verðlaunagripur Fjöruverðlaunanna, sem listakonan Kogga gerir, sé einn sá fallegasti, en um er að ræða keramikegg á steini. Svo skemmtilega vill til að Gerður hlaut Fjöruverðlaunin líka 2021 í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir skáldsöguna Iðunn & afi pönk þannig að nú á hún tvö keramíkegg. „Það er gott að eiga heilt hreiður af þessum fallegu eggjum.“

Öll flóra samfélagsins var undir 

„Það er alltaf mjög ánægjulegt að fá klapp á bakið og staðfestingu á því að fólki finnist eitthvað varið í það sem maður er að gera,“ segir Kristín Svava Tómasdóttir. Auk Farsóttar voru tilnefnd Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar eftir Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Elínu Elísabetu Einarsdóttur og Vegabréf: Íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur. 

Kristín Svava Tómasdóttir
Kristín Svava Tómasdóttir mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Í dómnefnd fræðibóka og rita almenns eðlis sátu Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur, Sigrún Birna Björnsdóttir framhaldsskólakennari og Sigrún Helga Lund tölfræðingur. Í umsögn þeirra segir: „Á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs stendur yfir aldargamalt, tveggja hæða timburhús með viðburðaríka sögu; fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga, farsóttarspítali, geðsjúkrahús og gistiskýli fyrir heimilislausa. Í dag er það mannautt og ber dulúðlegt nafn með rentu. Í Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 rekur Kristín Svava Tómasdóttir sögu þessa merka húss, sem umfram allt er litrík saga fólksins sem húsið hýsti og samfélagsins sem skóp það.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Kristín Svava að sér þyki sérstaklega vænt um að fá Fjöruverðlaunin í ljósi þess að um sé að ræða „femínísk verðlaun. Það er alltaf mikilvægur þáttur í því sem ég er að gera, þar á meðal í þessari bók,“ segir Kristín Svava sem hlaut Fjöruverðlaunin í tveimur flokkum árið 2021, fyrir ljóðabálkinn Hetjusögur í flokki fagurbókmennta og fyrir Konur kjósa: Aldarsaga í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, en Kristín Svava var ein fjögurra höfunda að seinni bókinni. 

„Ég vann Farsótt að nokkru leyti samhliða Konur kjósa, en sú bók hafði hafði klárlega áhrif á vinnuna við Farsótt,“ segir Kristín Svava og tekur fram að markmið hennar með Farsótt hafi verið að flétta saman stóru sögu kerfisins og þjóðfélagsins við minni persónulegar sögur, „bæði út frá kynjavinklinum, með því að halda góðu kynjajafnvægi í því fólki sem ég var að draga fram, og með tilliti til stétta þannig að öll flóra samfélagsins væri undir.“

Nánar er rætt við verðlaunahafana á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, fimmtudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert