Vill finna svör um afdrif mannanna

Sadpara og John Snorri.
Sadpara og John Snorri.

Fjórum mánuðum eftir að þrír af göngufélögum hans, þeirra á meðal íslenski göngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson, létust á leið sinni á topp næsthæsta fjalls veraldar er Ottawa Elia að ganga á fjallið, K2, að nýju. Hann vonast til þess að hann muni, ásamt þeim sem með honum fara, geta veitt fjölskyldum hinna látnu svör. Þeir hafa ekki sést síðan þeir lögðu af stað á toppinn í febrúarmánuði. 

Rætt er við Elia Saikaly á vefmiðli Ottawa Citizen

Elia Saikaly er kanadískur kvikmyndagerðarmaður sem hélt á K2 til þess að festa á filmu för Johns Snorra og hinna pakistönsku Ali Sadpara og Sajid Ali Sadpara.

„Málalok eru lykilatriði fyrir fjölskyldurnar. Við vitum ekkert hvað henti þá. Þeir hurfu sporlaust,“ segir Elia Saikaly í viðtalinu sem fór fram í textaskilaboðum. Hann var þá staddur í þorpinu Skardu í norðausturhluta Pakistan.

Andlátin ásækja Saikaly

John Snorri ætlaði sér að vera fyrstur til þess að klífa topp K2 að vetrarlagi. Fjallið er þekkt sem eitt banvænasta fjall heims. Síðan það var fyrst klifið árið 1954 hafa færri en 400 manns komist á toppinn. Tæplega 100 hafa látið lífið í tilraunum sínum til þess að komast alla leið. Til samanburðar hafa um 6.000 manns komist á topp Mount Everest sem er 200 metrum hærra en hið 8.611 metra háa K2. 

Hópur nepalskra fjallgöngumanna náði fyrst á topp K2 að vetrarlagi í janúarmánuði. John Snorri og félagar lögðu af stað á toppinn 5. febrúar síðastliðinn en þar sem súrefnisbúnaður Sajids bilaði á leiðinni upp þurfti hann að halda niður einn síns liðs áður en á toppinn var komið. Juan Pablo Mohr Prieto frá Chile slóst í hóp Johns Snorra og Ali Sadpara. Þeir eru nú allir taldir af. 

Andlátin, sérstaklega andlát Johns Snorra og Sadpara, hafa ásótt Saikaly, sem vill nú finna svör við spurningum sínum um afdrif mannanna. Saikaly er nú staddur skammt frá grunnbúðum K2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert