Halli ríkissjóðs ekki tapað fé

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, reifaði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi óskir sínar um framtíð Íslands eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar. Hann sagði mikilvægt að muna að lægðinni í kjölfar faraldursins muni ljúka og að halli ríkissjóðs sé ekki tapað fé – honum sé varið í mikilvæg málefni.

„Þetta eru ekki lengur fordæmalausir tímar, var niðurstaða upplýsingafundar almannavarna fyrir um það bil tveimur vikum. Við erum í þeirri skrýtnu stöðu að hið óvenjulega er orðið venjulegt.

En við þær aðstæður er mikilvægt að muna að þetta er samt sem áður ekki ástand sem er komið til að vera. Við erum í tímabundnum erfiðleikum og við erum staðráðin í að vinna bug á þeim, bæði veirunni og efnahagsvandanum,“ sagði Bjarni í upphafi ræðu sinnar.

„Það sem ég vil“

Bjarni talaði um þær aðstæður sem hann vildi helst sjá og að sem hann vilji að breytist á komandi misserum, sérstaklega í kjölfar kórónuveirufaraldurins.

Það sem ég vil fá aftur er næg vinna, óheft samskipti og heilsufarslegt öryggi. Hversdagslíf sem gengur eðlilega fyriri sig, þar sem fólk er ekki sent í sóttkví eftir að hafa farið með barnið sitt á leikskólann eða þar sem þarf að sigla í land með fullan bát af veikum sjómönnum.

En það sem ég vil að breytist er fjölbreytni atvinnulífsins. Fleiri stoðir, áhersla á þekkingu og atvinnugreinar sem eru ekki eins viðkvæmar fyrir sveiflum náttúrunnar, - jafnvel dyntum náttúrunnar - og þær sem við treystum svo mjög á nú. Ég vil sjá veg fyrri stoða sem mestan, að ferðaþjónusta blómstri, útvegurinn afli vel og álframleiðslan verði greidd sanngjörnu verði.“

Halli ríkissjóðs ekki tapað fé

Bjarni sagði að án atvinnulífs yrði engin viðspyrna til þess að milda áfallið og til þess að stytta aðhlaupið að næsta hagvaxtarskeiði. Hann sagði líka að sá halli sem horft sé fram á ríkisrekstrinum væri ekki tapað fé

„Við þessar aðstæður er hallarekstur réttlætanlegur. Halli ríkissjóðs er ekki tapað fé. Honum er varið til að: standa með heimilunum og styðja fyrirtæki í gegnum erfiða tíma. Fjárfesta í betri tækni, sterkari innviðum og styðja rannsóknir, þróun og nýsköpun. Hraða orkuskiptum og ná markmiðum í loftslagsmálum. Lækka skatta og tryggja skattalegar ívilnunir til að örva fjárfestingu þegar hana skortir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert