Lægri gildi svifryksmengunar en síðustu tvö ár

Svifryk frá flugeldum getur verið hættulegt.
Svifryk frá flugeldum getur verið hættulegt. mbl.is/​Hari

Svifryksmengun á mælum Umhverfisstofnunar í Dalsmára náði hámarki klukkan eitt í nótt, en þá mældist magn svokallaðs PM10 svifryks 1.036,7 míkrógrömm í hverjum rúmmetra. Fíngerðara svifryk, svokallað PM2,5, mældist hins vegar 901,1 míkrógrömm í rúmmetra þegar mest var í nótt. Loftgæði þegar þessar tölur mælast teljast mjög slæm. 

Loftgæði á öllum mælum sem birtir eru á vef Umhverfisstofnunar, Loftgæði.is, mælast nú góð, ef frá er talinn mælirinn í Húsdýragarðinum í Laugardal og í Dalsmára. Mælirinn í Húsdýragarðinum virðist hafa dottið út á miðnætti í nótt, en engar uppfærðar tölur hafa borist þar síðan á miðnætti. Þá eru loftgæði samkvæmt mælinum í Dalsmára sögð í meðallagi góð.

Loftgæði samkvæmt mælinum í Dalsmára, þar sem líklegast var slegið mengunarmet hérlendis á áramótunum fyrir ári síðan, voru þó talsvert betri í ár en í fyrra. Þá fór gildi PM10 yfir 4.500 míkrógrömm í rúmmetra, en til samanburðar mældust um 3.000 míkrógrömm í rúmmetra áramótin 2016/2017 og þegar Eyjafjallajökull gaus mældist mest í kringum tvö þúsund í Reykjavík. Þá fóru gildin hins vegar hæst í 14 þúsund við Vík í Mýrdal.

Líklegt má telja að örlítill vindur í nótt á höfuðborgarsvæðinu hafi talsvert að segja þegar kemur að því að mengunin núna mældist minni en síðustu ár.

Loftgæði samkvæmt mælinum í Dalsmára tóku að versna um kvöldmatarleytið í gær. Þá höfðu þau verið um og undir 5 míkrógrömm. Klukkan átta voru þau komin upp í 14,6 míkrógrömm og klukkan níu mældust þau 33,7 míkrógrömm í rúmmetra. Samkvæmt þeim skammtímagildum eru loftgæði enn talin góð, en klukkan tíu í gærkvöldi var gildi PM10 komið upp í 73,4 míkrógrömm og flokkast þá sem miðlungs góð loftgæði.

Klukkan ellefu, þegar Áramótaskaupið var á enda fór gildi PM10 upp í 166 og voru þau þá talin slæm og svo upp í 213,3 míkrógrömm á rúmmetra á miðnætti. Hæst mældust þau sem fyrr segir 1.036,7 míkrógrömm klukkan 1, en klukkan tvö voru gildin komin niður í 177,4 míkrógrömm. Nú klukkan átta í morgun eru gildin komin niður í 42,9 míkrógrömm á rúmmetra og teljast þau aftur góð, þó gildi PM10 svifryks sé enn talsvert hærra en fyrir sólarhring síðan.

Svipaða sögu er að segja um mælingu á PM2,5 svifryki, sem er fíngerðara svifryk. Fór gildi þess að hækka um kvöldmatarleytið og náði hámarki eftir miðnætti. Er það nú komið niður í 21,7 míkrógrömm og telst í meðallagi gott, en er þó enn töluvert hærra en á gamlársdagsmorgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert