Vanskil aukast um 1,2 milljarða

Vanskil lántakenda hjá LÍN fara vaxandi. Myndin er úr safni …
Vanskil lántakenda hjá LÍN fara vaxandi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Töluverð aukning varð á vanskilum lána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) á milli áranna 2014 og 2015. Í árskýrslu sjóðsins fyrir árið 2015 kemur fram að nafnverð lánanna sem eru í vanskilum nemi um 8,7 milljörðum króna. Vanskilin hafi hækkað um 1,2 milljarða króna á milli ára og eru meiri hjá þeim sem eru með lán án ábyrgðarmanna.

Stærsti hluti vanskilanna er eldri en eitt ár og töluverður hluti er eldri en þriggja ára. Af þeim 2.174 lánþegum sem eru í vanskilum hafa 1.346 verið í vanskilum í eitt ár eða fleiri. Vanskil þeirra nema hátt í 1,6 milljörðum króna.

Hlutfall vanskila af heildarlánasafni LÍN hefur hækkað frá árinu 2010. Þá námu vanskil 0,47% af lánum sjóðsins en það hlutfall er nú komið upp í 0,50%. Þá hefur lánþegum sem fara í gjaldþrot fjölgað um 28% á milli áranna 2014 og 2015.

Hlutfall vanskila af heildarlánasafni LÍN hefur vaxið frá árinu 2010.
Hlutfall vanskila af heildarlánasafni LÍN hefur vaxið frá árinu 2010. mbl.is/Hjörtur

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, segist ekki hafa sérstakar skýringar á hvers vegna vanskil færist í aukana á sama tíma og efnahagsbati hefur átt sér stað í samfélaginu.

Hún bendir hins vegar á að hlutfall lána án ábyrgðamanna fari alltaf stækkandi eftir að hætt var að krefjast þeirra árið 2009. Meiri vanskil séu af lánum sem eru án ábyrgðarmanna.

„Það er náttúrulega alltaf sárt ef þetta fellur á foreldra eða ættingja. Við sjáum vísbendingar um að það séu meiri vanskil af lánum sem eru án ábyrgða en af þeim sem eru með ábyrgðamenn. Svo sjáum við það líka í þessari þróun í aukningu á vanskilum af lánasafninu í heild sinni. Þar er aukningin meiri hjá þeim sem eru með lán sem eru án ábyrgðar,“ segir framkvæmdastjórinn. 

Lán án ábyrgðarmanna eru nú 46,8% af lánasafni LÍN og segir Hrafnhildur Ásta að það hlutfall eigi eftir að hækka á næstu árum.

Tuttugu manns með 689 milljónir samtals

Hrafnhildur Ásta segir auk þróunarinnar í vanskilum séu há námslán áhyggjuefni fyrir sjóðinn. Endurheimtur sjóðsins eru mun minni af hæstu lánunum en af þeim sem eru lægri. Þannig endurheimti hann um 70% af lánum á bilinu 2,5-5 milljónir króna en aðeins 20% af lánum sem nema 20 milljónum króna eða meira. 

Í árskýrslunni má finna lista yfir innheimtu tuttugu hæstu lán sjóðsins. Þau eru frá 30,4 milljónum króna og upp í 48,3 milljónir. Samtals hafa þessir tuttugu einstaklingar þegið 689 milljónir króna í námslán frá LÍN.

Átta af þeim hafa ekki greitt neitt af lánunum undanfarin níu ár, þar af sex af þeim tíu sem eru með hæstu lánin. Þessir tuttugu einstaklingar hafa að meðaltali greitt 105.000 krónur af lánum sínum á ári. Allir tóku þeir hluta eða allt námið erlendis og 60% þeirra hefur lokið doktorsnámi.

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN.
Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN. mbl.is/Golli

Ósanngjörn skipting styrkja

„Það sem er kannski ósanngjarnt er hversu misjafnlega styrkurinn dreifist á námsmenn. Þeir sem taka hæstu lánin fá mestu styrkina,“ segir Hrafnhildur Ásta.

Þannig fara um 65% af heildarstyrkjum í námslánakerfinu til 20% lántakendanna sem hæstu lánin taka. Innan við 1% heildarstyrkja LÍN fara til þeirra sem taka 20% lægstu lánin.

Þetta telur framkvæmdastjórinn mega rekja að hluta til þess hvernig endurgreiðslum lánanna er háttað. Lánþegar greiði jafnmikið af lánunum óháð því hversu hátt lán þeir taka því þeir greiði aðeins fast hlutfall af tekjum sínum í afborganir.

Í frumvarpi að nýjum lögum um LÍN sé lagt til breyting á endurgreiðslunum. Þar sé gert ráð fyrir að þær verði háðar upphæð lánsins en ekki tekjum lántakanda. Þá er það markmið sett að styrkur ríkisins til námsmanna verði sýnilegur og sé greiddur á meðan á námi stendur en ekki á meðan á afborgun stendur. Allir námsmenn fái sama styrk óháð námsferlum og hvar þeir stunda námið. Þá segir Hrafnhildur Ásta að hvati sé í nýju lögunum til að ljúka námi á sem stystum tíma.

Erfitt og dýrt að endurheimta erlendis

Ef vanskilin ársins 2015 eru skoðuð sérstaklega með tilliti til búsetu lánþega þá kemur í ljós að verulegur munur er á vanskilum eftir búsetu. Þannig eru vanskil þeirra sem búa erlendis mun hærri en þeirra sem búa á Íslandi. Munurinn í hlutföllum er allt að tvö- til þrefaldur ef miðað er við lán sem er í húfi en ef eingöngu er miðað við vanskil í hlutfalli við heildarlán þá er munurinn þre- til fimmfaldur.

Bendir þetta til þess að vanskil þeirra sem búa erlendis séu líka eldri. Skýring á því er meðal annars að mun erfiðara og kostnaðarsamara er fyrir sjóðinn að innheimta vanskil erlendis. Þá eru það einkum lánþegar sem búa í Bandaríkjunum og Kanada sem standa verr í skilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert