Samþykktu að draga tillöguna til baka

Frá borgarstjórnarfundi í dag.
Frá borgarstjórnarfundi í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á aukafundi sem lauk nú í kvöld að draga til baka tillögu sem samþykkt var þann 15. september þess efnis að sniðganga vörur sem eiga uppruna sinn í Ísrael. Tillögurnar, sem voru samhljóða tillögur frá meiri- og minnihluta, voru samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.

Tillögur minni- og meirihluta voru sameinaðar til að draga úr því að minnihlutinn væri að leiðrétta það sem meirihlutinn hefði gert rangt, segir Halldór Halldórsson. Hann lýsti vonbrigðum með að meirihlutinn hefði ekki tekið til greina ítrekaðar ábendingar um að draga greinargerðina með tillögu sinni til baka.

Hann sagði að það myndi draga dilk á eftir sér.

Miklar umræður sköpuðust á fundinum. Framan af snérust umræðurnar aðallega um þá ákvörðun að spyrða saman tillögur meiri- og minnihluta þess efnis að draga tillöguna til baka. Minnihlutinn var ósáttur við þá ákvörðun, og sagði það tilraun meirihlutans til að skrifa söguna sér í hag og geta sagt að tillaga meirihlutans hafi verið samþykkt.

Borgarfulltrúar minnihlutans vöktu hins vegar athygli á að tillaga minnihlutans hafi komið fram á undan, auk þess sem greinargerðir með tillögunum væru ekki sambærilegar. Í greinargerð meirihlutans væri til að mynda gert ráð fyrir að vinna málið áfram og útfæra sniðgöngu frekar. Fulltrúum minnihlutans þótti með því ekki nóg að gert til að takmarka það tjón sem þeir sögðu tillöguna þegar hafa valdið íslenskum efnahag.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fór meðal annars fram á að borgarstjóri segði af sér og Júlíus Vífill gerði því einnig skóna.

Björn Blöndal sagði í ræðu sinni að fyrir hefði farist að tiltaka að sniðganga ætti vörur frá hernumdu svæðum Palestínu, ekki Ísrael í heild.

Hjálmar Sveinsson sagði í andsvörum við ræðu sem Kjartan Magnússon hélt að tilgangur ræðunnar hafi umfram allt verið að koma höggi á vinsælan borgarstjóra.

Skúli Helgason borgarfulltrúi sagði ekkert benda til að hætt væri við uppbyggingu hótels við Hörpureit. Hann vísaði til yfirlýsingar sem send var fjölmiðlum í morgun. Í henni stóð meðal annars:

„Við látum öðrum eftir pólitísk úrlausnarefni, hvort heldur er á Íslandi eða á alþjóðlegum vettvangi. Sjálfur hef ég fulla trú á umburðarlyndi Íslendinga og virðingu þeirra fyrir öllu fólki,“ segir Richard L. Friedman, forsvarsmaður fjárfesta í Edition Hotel Project, í yfirlýsingu.

Júlíus Vífill sagði í ræðu sinni að hann óttaðist að borgarbúar héldu að borgarstjórn ynni mál með þeim hætti og hann sagði raunina hafa verið með það mál sem nú er til umræðu. Hann segir þessi vinnubrögð hins vegar einsdæmi, hann hefði ekki séð önnur eins vinnubrögð á sínum langa ferli.

Júlíus Vífill sagði nauðsynlegt að vinna aftur traust „hins almenna gyðings.“ Það dugaði ekki að vera reiður sjálfum sér, það dygði skammt til að bæta tjón þeirra sem hann segir að tillagan hafi valdið.

„Á borgarstjóra hvílir mikil ábyrgð,“ segir Júlíus, og að hver borgarstjóri verði að axla þá ábyrgð og að margir borgarstjórar hafi þurft að leggja sína persónu til hliðar gegnum tíðina.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundinum að borgarstjóri ætti að lágmarka tjónið sem hann sagði hina fyrri tillögu hafa valdið með því að segja af sér, og uppskar lófatak frá hluta áhorfenda á pöllum ráðhússins.

Dagur B. Eggertsson sagði þörf á að skerpa á því hver stefna Íslands sé að versla við hernumdu svæðin. Það væri hins vegar ekki hlutverk borgarstjórnar.

Hann rifjaði upp að tillögur þess efnis að vörur frá hernumdu svæðum Palestínu væru sérmerktar hefðu fengið jákvæða umsögn í utanríkisráðuneytinu.

„Að þekkja og virða sín valdamörk er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna og það þarf stöðugt að vera í gangi. Þetta er líka eitt af þeim gildum sem sá flokkur sem ég starfa fyrir leggur mikla áherslu á,“ sagði Halldór Auðar Svansson meðal annars í ræðu sinni. „Ég hef oft verið gagnrýninn á vald annarra og látið í mér heyra þegar mér finnst því vera illa beitt, til dæmis þegar mér finnst lögreglan ekki gæta meðalhófs eða forsætisráðherra seilast inn á verksvið sveitarfélaga í óþökk þeirra. Sú gagnrýni yrði af engu höfð ef ég gerði sjálfan mig og einhverja félaga mína undanskilda frá slíkri gagnrýni og lokaði eyrunum þegar ég fæ á mig málefnalega gagnrýni á það hvernig ég hegða mér sjálfur.“

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í ræðu sinni að svo virtist sem fulltrúum meirihlutans væri sama um þær afleiðingar sem tillagan sem samþykkt var 15. september hefur að hennar mati haft í för með sér.

Hún segir engu máli skipta hvernig borgarfulltrúum líði vegna þessa, heldur sé það eina sem skipti nú máli að lágmarka skaðann eftir að meirihlutinn sendi þau kolröngu skilaboð að sniðganga vörur frá heilli þjóð.

„Þetta eru ótrúlegir stælar og undanbrögð,“ sagði Áslaug að meirihlutinn hafi sýnt af sér. „Þetta er fáránleg niðurstaða.“ Hún rifjaði upp orð borgarstjóra í byrjun fundar þess efnis að greinargerðir skiptu ekki máli, aðalmálið væri að verið væri að draga tillöguna til baka. Annað segir hún að hafi komið í ljós í máli borgarfulltrúanna, sem hún segir „fabúlera“ um að skaðinn sé nánast enginn.

Dagur B. Eggertsson á fundinum í dag.
Dagur B. Eggertsson á fundinum í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
Sjálfstæðismenn ráða ráðum sínum.
Sjálfstæðismenn ráða ráðum sínum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert