„Þetta er allt að leysast upp í vitleysu“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Vandséð er hvernig Schengen-samstarfið á að lifa af yfirstandandi flóttamannavanda innan Evrópusambandsins ef ekki tekst að koma á meiri samstöðu um aðgerðir og markmið.

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun spurður að því hvort endurskoða þyrfti Schengen-samstarfið sem gengur út á að fella niður hefðbundið landamæraeftirlit á milli aðildarríkja þess en efla það á móti á ytri landamærum svæðisins.

Sigmundur sagði að svo virtist sem endurskoðun á Schengen-samstarfinu væri að eiga sér stað af sjálfu sér hvort sem fólki líkaði betur eða verr, en Ísland er aðili að samstarfinu ásamt öðrum aðildarríkjum EFTA. Flest ríki Evrópusambandsins eru að sama skapi aðilar að því. Sigmundur sagði lítið bóla á samstöðu innan sambandsins um þessi mál. Frekar væri unnið í sitt hvora áttina. „Þetta er einhvern veginn allt að leysast upp í vitleysu.“

„Það eru alltaf að koma nýjar og nýjar fréttir af einhverjum stöðum þar sem menn eru að setja upp eftirlit á landamærum og síðast verið að stoppa umferð á milli Danmerkur og Þýskalands að miklu leyti. Þetta auðvitað vekur mjög stórar spurningar um Schengen þegar menn eru hættir svo mikið sem að skrá fólk inn á svæðið. Þá er í rauninni hugmyndin sem það gekk út á, þessi ytri mörk, þá er hún fallin.“

Flóttamannavandinn væri af slíkri stræðargráðu að hann yrði ekki leystur nema Evrópuríkin kæmu sér saman um það með hvaða hætti ætti að leysa hann sagði forsætisráðherra. Hann gagnrýndi ennfremur það fyrirkomulag að tekið væri fagnandi á móti flóttamönnum sem kæmu til að mynda til Þýskalands á sama tíma og þeim væri bannað að fljúga til ríkja Evrópusambandsins með venjubundnum hætti. Þannig væru þau skilaboð send til fólksins að það yrði að leita á náðir glæpamanna til þess að komast til ríkja sambandsins og þá yrði tekið vel á móti því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert