Alvarlegar afleiðingar niðurskurðar

Lögreglumenn að störfum við blokkina við Hraunbæ í
Lögreglumenn að störfum við blokkina við Hraunbæ í Rósa Braga

Stjórn Geðhjálpar skorar á stjórnvöld að tryggja nægilegt fjármagn til að hægt sé að halda úti aðgengilegri, fullnægjandi og faglegri geðheilbrigðisþjónustu innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins.

„Harkaleg framganga í niðurskurði fjármagns innan geðheilbrigðisþjónustunnar hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þjónustu við fólk með geðraskanir og geðfötlun. Brýnt er að snúa þeirri þróun við til að koma í veg fyrir að mannlegur harmleikur á borð við brunann í Breiðholti og skotárásina í Hraunbæ endurtaki sig.

 Niðurskurðurinn hefur valdið því að fólki hefur verið neitað um þjónustu, ekki fengið þjónustu við hæfi og/eða verið sent alltof snemma heim eins og dæmin sanna. Af einstökum hópum má nefna alvarlega geðsjúka, fólk með tvíþættan vanda (geðrænan og vímuefnavanda) og fanga. Með sama hætti hefur samstarfi milli heilbrigðiskerfisins og velferðarþjónustu sveitarfélaganna verið ábótavant. Dæmi eru um að sjúklingar hafi beinlínis fallið milli kerfa, þ.e. þjónusta sveitarfélaganna hefur ekki tekið við þegar þjónustu Landspítalans-Háskólasjúkrahúss hefur sleppt og öfugt.

Jafnframt ber að stuðla að því að starfsfólk hafi svigrúm til að sinna sjúklingum sínum af alúð, stunda endurmenntun og taka þátt í að þróa og innleiða nýjar leiðir til að styðja einstaklinga í átt til bata. Leggja ber aukna áherslu á forvarnir, m.a. með niðurgreiðslu þjónustu sálfræðinga- og geðlækna og ráðningu sérfræðinga á þessu sviði til heilsugæslunnar. Leita ber allra leiða til að stuðla að því að útrýma þvingun úr geðheilbrigðisþjónustu.

Með ofangreindum hætti er í senn stuðlað að persónulegum ávinningi þúsunda einstaklinga, mannvirðingu og þátttöku í samfélaginu ásamt langtíma sparnaði og almennum ávinningi fyrir samfélagið allt. Hópur fólks með geðraskanir og geðsjúkdóma er einn fjölmennasti einstaki sjúklingahópurinn í íslensku samfélagi í dag. Útlit er fyrir að sífellt fjölgi í þessum hópi á næstu árum. Brýnt er að bregðast hratt við því ástandi sem komið er upp með því að tryggja að fjármagn til geðheilbrigðisþjónustu endurspegli þarfir notenda. Þannig verði komið í veg fyrir ófremdarástand á sviði geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi í framtíðinni.

Síðast en ekki síst skorar stjórn Geðhjálpar á stjórnvöld að hefja nú þegar vinnu við mótun geðheilbrigisstefnu í samræmi við nýsamþykkta þingsályktunartillögu þess efnis.  Að þeirri vinnu verði, eins og í annarri ákvarðanatöku innan geðheilbrigðisþjónustunnar, tryggð aðkoma  fólks með eigin reynslu,“ segir í yfirlýsingu frá Geðhjálp.

Mikill reykur og sót var í stigagangi fjölbýlishúss í Iðufelli …
Mikill reykur og sót var í stigagangi fjölbýlishúss í Iðufelli þegar kviknaði í íbúð í húsinu. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert