Handtökumálið frá sérstökum saksóknara

Skjáskot úr myndbandinu.
Skjáskot úr myndbandinu.

Rannsókn á máli lögregluþjóns, sem sakaður er um harðræði við handtöku konu í miðborg Reykjavíkur, er lokið af hálfu sérstaks saksóknara og málið komið aftur inn á borð til ríkissaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort maðurinn verður ákærður.

Hin umdeilda handtaka fór fram fyrstu helgina í júlí og fór myndband af henni eins og eldur í sinu um netið í kjölfarið. Fyrir liggur refsikrafa frá konunni, en lögmaður hennar sagði í samtali við mbl.is að sýnilegir áverkar hafi verið víða á líkama hennar sem hún fékk vottorð um frá lækni eftir handtökuna.

Skýrslutökum lokið

Samkvæmt lögreglulögum (nr. 90/1996) skal ríkissaksóknari rannsaka meint brot lögreglumanna í starfi, en heimilt er að leita liðsinnis annarra embætta ef þess gerist þörf.

Strax eftir helgina, mánudaginn 8. júlí, ákvað lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins að senda málið til ríkissaksóknara til rannsóknar. Sama dag var lögregluþjóninn sendur í leyfi.

Viku síðar, 15. júlí, óskaði ríkissaksóknari eftir liðsinni sérstaks saksóknara við rannsókn málsins, m.a. vegna þess að þar er til staðar yfirheyrsluherbergi með tilheyrandi upptökubúnaði o.fl. sem ekki er hjá ríkissaksóknara.

Skýrslur hafa nú verið teknar bæði af lögregluþjóninum og vitnum, að sögn Kolbrúnar Benediktsdóttur, saksóknara hjá embætti ríkissaksóknara. Málið hefur nú verið sent til baka frá sérstökum saksóknara.

Að sögn Kolbrúnar verður nú farið yfir málsgögn og í framhaldi tekin ákvörðun um hvort tilefni sé til ákæru. Ekki er ljóst hvenær sú ákvörðun liggur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert