„Það hlýtur að koma að því“

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er ekkert ákveðið um það enda er þinghlé núna en það hlýtur að koma að því,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, spurður hvenær tillaga sem lögð var fram í nefndinni fyrir jól verði tekin fyrir. Í henni er kallað eftir því að gert verði hlé á viðræðunum við Evrópusambandið um inngöngu Íslands í sambandið og þær ekki hafnar að nýju nema með samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Meirihluti nefndarmanna í utanríkismálanefnd stendur að tillögunni en það eru fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auk Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og samflokksmanns Árna. Tillagan var lögð fram á fundi nefndarinnar 18. desember síðastliðinn og óskuðu fulltrúarnir sem lögðu hana fram eftir því að hún yrði tekin formlega fyrir á fundi sem fyrirhugaður var tveimur dögum síðar. Þeim fundi var hins vegar aflýst áður en til hans kom.

„Það kann vel að vera en það er ekkert ákveðið með það ennþá. Það er nú verið að reyna að leggja drög að einhverjum fundatöflum núna á næstunni á milli nefnda þannig að ég þarf að sjá hvað ég fæ út úr því,“ segir Árni Þór spurður hvort tillagan verði tekin fyrir á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert