Sprengjumaður gengur enn laus

Frá aðgerðum lögreglunnar við Hverfisgötu í gær.
Frá aðgerðum lögreglunnar við Hverfisgötu í gær. mbl.is/Júlíus

Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn lögreglu á sprengju sem fannst við Hverfisgötu í Reykjavík í gær. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, segir að lögreglan sé búin að ræða við fjölmörg vitni.

Hann segir að margir lögreglumenn komi að rannsókn málsins sem sé í fullum gangi. Málið sé litið alvarlegum augum.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að grunur beinist að feitlögnum og lágvöxnum manni á miðjum aldri sem vitni hafi séð ganga taugastrekktan af vettvangi og aka svo á brott í hvítri sendiferðabifreið. Náði vitnið ekki númerinu á bifreiðinni.

Lögreglan segir í tilkynningu, sem hún sendi frá sér í gær, að staðfest sé að sprengjan hafi sprungið fyrir kl. sjö í gærmorgun skammt frá stjórnarráðshúsinu. Engan sakaði  og þá urðu engar skemmdir að sögn lögreglu. Sprengjan var ekki öflug en það var hins vegar hætta á ferðum í nánasta umhverfi þar sem hún sprakk.

Þá segir lögreglan ljóst að að sá eða þeir sem bjuggu sprengjuna til hafi þurft að búa yfir einhverri kunnáttu.

Unnið er að því að yfirfara myndefni úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni. Þá er sprengjan til frekari rannsóknar hjá tæknideild lögreglunnar.

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar vitna í tengslum við rannsókn hennar á sprengju sem fannst neðst við Hverfisgötu í Reykjavík í [gær]morgun. Aðili sem var á biðstöð fyrir strætisvagna neðst á Hverfisgötunni, fyrir klukkan sjö, er sérstaklega beðinn um að gefa sig fram. Aðrir, hvort sem þeir geta gefið upplýsingar um fólk eða ökutæki á þessu svæði á tímabilinu 6.30-7, eru einnig beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000 en upplýsingar má einnig senda í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Sömuleiðis er hægt að koma nafnlausum ábendingum á framfæri í síma 800-5005,“ segir í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert