Rannsókn á skotárás lokið

Lögreglan á vettvangi þar sem skotárásirnar voru gerðar í nóvember.
Lögreglan á vettvangi þar sem skotárásirnar voru gerðar í nóvember. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn á skotárás, sem gerð var á bíl í Bryggjuhverfinu í austurborg Reykjavíkur að kvöldi 18. nóvember. Eru þrír menn grunaðir um að hafa gert tilraun til manndráps. Ríkissaksóknara hefur verið sent málið til ákvörðunar.

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að einn mannanna, sem tóku þátt í skotárásinni, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 16. febrúar. Tveir aðrir sitja að auki í varðhaldi vegna málsins. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að annar þeirra hafi játað við yfirheyrslur að hafa staðið að skotárásinni ásamt hinum mönnunum tveimur.

Vitnað er í greinargerð lögreglu þar sem segir, að um sé að ræða afar alvarlegt afbrot, þ.e. lífshættulega skotárás, sem hafi augljóslega verið liður í uppgjöri tveggja manna vegna fíkniefna. Að mati lögreglu sé hér um að ræða afbrot sem framið hafi verið með skipulögðum og verkskiptum hætti af hópi manna sem kenni sig við tiltekin glæpasamtök.

Fram hefur komið að mennirnir tengist vélhjólaklúbbnum Outlaws.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert