TM leiðréttir eigin áhættu tjónþola

Tryggingamiðstöðin segir í yfirlýsingu, að viðskiptavinir sem félagið hafi þegar gert upp við vegna tjóns í jarðskjálftunum, muni sjálfkrafa fá leiðréttingu í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lágmark eigin áhættu í tjónum sem Viðlagatrygging Íslands bætir lækki úr 85.000 krónum í 20.000 krónur.

Tryggingamiðstöðin segir, að viðskiptavinir muni sjálfkrafa fá leiðréttingu í samræmi við þessa ákvörðun án þess að þurfa að hafa samband við TM. Félagið hafi  þegar hafið vinnu við að undirbúa þessar viðbótargreiðslur.  

Í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu segir, að fram hafi komið ábendingar um að eigin áhætta, vegna tjóna á lausafjármunum sem bæta skuli úr Viðlagatryggingu Íslands, sé óeðlilega há. Til samanburðar sé eigin áhætta innbústrygginga hjá vátryggingafélögunum yfirleitt á bilinu 10 til 20 þúsund krónur. Skýrt sé kveðið á um eigin áhættu í lögum og því ekki hægt að lækka eigin áhættu vátryggðs hjá Viðlagatryggingu nema með lagabreytingu.

Því ákvað ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun, að tillögu viðskiptaráðherra, að setja bráðabirgðalög um breytingu ákvæða laga um Viðlagatryggingu Íslands þar sem kveðið er á um að lágmark eigin áhættu lækki niður í 20 þúsund krónur. Í lögunum er ennfremur felld niður vísitölutenging lágmarks eigin áhættu og í staðinn veitt reglugerðarheimild til að ákvarða fjárhæðina. Breytingarnar eru gerðir í samvinnu við Viðlagatryggingu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert