Hert landamæraeftirlit vegna NATO-funda

Á miðnætti í nótt hóf lögreglan landamæraeftirlit á innri landamærum Íslands að Schengen-ríkjunum og efldi eftirlit á ytri landamærum Schengen, skv. fyrirmælum ríkislögreglustjóra.

Er þetta gert í öryggisskyni vegna funda utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík í næstu viku en eftirlitið færist í fyrra horf á hádegi 16. maí. Hert landamæraeftirlit nær til allra landamærastöðva, jafnt til hafna sem flugvalla. Allir sem koma til landsins, jafnt frá Schengen-ríkjum sem annars staðar frá, verða að framvísa vegabréfum.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að þessi ráðstöfun sé gerð í samræmi við ákvæði Schengen-samningsins. Þar er kveðið á um að ríki geti tekið upp eftirlit á innri landamærum ef almannahagsmunir eru í húfi. Hollendingar og Belgar gripu t.d. til sambærilegra ráðstafana fyrir Evrópumeistarakeppnina í fótbolta árið 2000.

Farangur skoðaður betur

Aukið eftirlit mun að sjálfsögðu mæða mest á lögreglunni á Keflavíkurflugvelli sem hefur undirbúið aðgerðir í samráði við Útlendingaeftirlitið. Jóhann R. Benediktsson sýslumaður segir að allir útlendingar sem koma til landsins muni fylla út komuspjöld, svipuð þeim sem farþegar til Bandaríkjanna þurfa að útfylla, og skoðun á farangri verður hert til muna. Íslendingar munu ganga um sérstök hlið en útlendingar um önnur. Er það gert til að auðvelda vegabréfaeftirlit og tollskoðun. Áhersla verði lögð á að ekki komi til tafa á flugvellinum en aukinn mannskapur verði við störf

Aðspurður sagði Jóhann að kæmi einhver til landsins sem væri sannarlega óæskilegur yrði honum meinuð landganga. Slíku úrræði var síðast beitt þegar 19 danskir vítisenglar komu til landsins í byrjun ársins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert