Reyna að bjarga 600 manns í dag

Björgunaraðgerðir halda áfram í Hualien-sýslu í Taívan en talið er að um 600 manns séu fastir í göngum eða lokaðir á afskekktum svæðum eftir jarðskjálftann sem reið yfir landið í gær. Yfir eitt hundrað manns sváfu í tjaldbúðum fyrstu nóttina eftir skjálftann. 

Flestir eru fastir á hóteli nálægt Taroko þjóðgarðinum en einnig er töluverður fjöldi verkamanna fastur í göngum sem lokuðust vegna aurskriðu sem lokaði útgönguleiðum. Talið er að fólk sé fast í fleiri jarðgöngum í Hualien-sýslu.

Ekki er þó talið að mannskaði sé mikill. Chen Chien-Jen, forsætisráðherra Taívan, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að hann vonaðist til þess að í dag yrði hægt að koma öllum sem enn voru fastir til bjargar.

Aurskriður féllu yfir vegi og lokuðu af jarðgöng.
Aurskriður féllu yfir vegi og lokuðu af jarðgöng. AFP/CNA/Taiwan OUT

Íbúar sváfu utandyra

Í fyrrinótt að íslenskum tíma reið skjálfti að stærðinni 7,4 yfir eyjuna og í kjölfarið fylgdu yfir 100 skjálftar sem náðu sumir hverjir yfir 5 að stærð. Í hið minnsta níu eru látnir og yfir þúsund manns eru slasaðir.

Rúmlega 100 íbúar í Hualien-borg, sem varð verst úti, eyddu nóttinni utandyra vegna þess að íbúðarhúsnæði var sums staðar gerónýtt og sumir óttuðust eftirskjálfta. Stjórnvöld settu upp tjaldbúðir fyrir utan einn grunnskóla og sváfu þar yfir hundrað manns.

„Við höfum áhyggjur af því að þegar stóru eftirskjálftarnir verða, þá gæti verið mjög erfitt fyrir okkur að rýma íbúðina enn einu sinni - sérstaklega með barnið,“ sagði Indónesíumaðurinn Hendri Sutrisno, prófessor við Donghua-háskólann, að því er AFP greinir frá.

Íbúar gátu sofið í tjöldum fyrir utan grunnskóla í Hualien-borg.
Íbúar gátu sofið í tjöldum fyrir utan grunnskóla í Hualien-borg. AFP/Sam Yeh
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert