Þjóðverjar lögleiða kannabis

Kannabisneytendur fögnuðu við Brandenborgarhliði í Berlín á miðnætti er ný lög tóku gildi sem gera einkaneyslu kannabisnefna í Þýskalandi löglega. Lögleiðingin er umdeild í landinu. 

Nýja löggjöfin heimilar einstaklingum eldri en 18 ára að vera með allt að 25 grömm af kannabisefnum í sinni vörslu. Þá er einnig heimilt að rækta allt að þrjár maríjúanaplöntur til einkanota. 

Þýskaland er þriðja ríkið í Evrópu til að lögleiða kannabisefni, á eftir Möltu sem gerði það árið 2021 og Lúxemborg sem lögleiddi efnin árið 2023. Þá hafa Hollendingar gert tilraunir með lögleiðingu á ákveðnum svæðum, en undanfarin ár hefur ríkið hert löggjöf sína. 

Um 1.500 manns komu saman við Brandenborgarhliðið í gærkvöldi og reyktu sumir jónur. 

„Þú ert ekki undir eins mikilli pressu lengur,“ sagði hinn 25 ára gamli Niyazi við AFP-fréttaveituna og bætti við lögleiðingin þýddi ákveðið frelsi. 

Karl Lauterbach heilbrigðisráðherra tísti að kannabisnotkun væri ekki lengur tabú. Þá sagði hann að lögleiðingin aðstoðaði þá betur sem væru með „raunverulega fíkn“ og kæmi í veg fyrir svartan markað. 

Ólöglegt að selja efnin til 1. júlí

1. júlí verður síðan löglegt að fá kannabis með löglegum hætti í gegnum svokallaða „kannabisklúbba“ í Þýskalandi. 

Í hverjum klúbbi mega vera 500 einstaklingar og getur hver og einn fengið 50 grömm af kannabis á mánuði í gegnum klúbbinn. 

Þangað til mega neytendur „ekki segja lögreglunni hvar þeir keyptu kannabisið sitt“ að sögn Georg Wurth, forstjóra þýsku kannabissamtakanna. 

Hætt var við upprunalegar áætlanir um að kannabis yrði selt í verslunum með sérstakt leyfi vegna andstöðu Evrópusambandsins. Þó er verið að útbúa drög að frumvarpi sem kveður á um að prófa sölu efnanna á ákveðnum svæðum. 

Áhyggjur af ungu fólki 

Meðferðaraðilar telja hættu á að lögleiðingin leiði til þess að notkun á kannabis aukist á meðal ungs fólks sem er sá hópur sem á í mestri hættu á að þróa með sér heilsukvilla vegna neyslunnar, þar á meðal geðrof og geðklofa. 

„Frá okkar sjónarhóli eru nýju lögin eins og þau eru rituð hörmung,“ sagði Katja Seidel, sálfræðingur á meðferðarstofnun fyrir ungt fólk í Berlín. 

Ríkisstjórnin hefur þó heitið því að ráðast í forvarnarherför til þess að upplýsa almenning um hætturnar á kannabisneyslu. Þá hafa þau lofað að kannabis verði áfram ólöglegt fyrir börn og verði ólöglegt nærri skólum, leikskólum og leiksvæðum. 

Endurskoða 200 þúsund mál 

Þá má gera ráð fyrir að lögleiðingin hafi áhrif á réttarkerfið en að sögn þýska dómarafélags gætu nýju lögin haft áhrif á meira en 200 þúsund mál. 

Dómsmálaráðherrann Marco Buschmann sagði að fyrst um sinn myndi lögleiðingin þýða aukið álag á löggæslu en til langs tíma litið minnki hún álag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert