Fyrsti sigur Haley kom í Washington DC

Nikki Haley heldur ræðu.
Nikki Haley heldur ræðu. AFP/Scott Eisen

Nikki Haley bar sigur úr býtum í forvali Repúblikanaflokksins í Washington DC í nótt.

Þetta var fyrsti sigur hennar í kapphlaupinu við Donald Trump, fyrrverandi forseta, um hvaða frambjóðandi Repúblikana mun etja kappi við Joe Biden Bandaríkjaforseta í forsetakosningunum í haust.

Sigur Haley í höfuðborg Bandaríkjanna þykir táknrænn og kemur rétt fyrir ofur-þriðjudaginn svokallaða þar sem íbúar 15 ríkja og eins svæðis kjósa í forvalinu.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Saul Loeb

Demókratar hafa lengi haft yfirburði í Washington DC og eru aðeins um 22 þúsund skráðir Repúblikanar þar, að sögn CNN.

Haley vann 63 prósent atkvæða í forvalinu, sem var haldið á aðeins einum stað, eða á hóteli í miðbænum, að sögn Politico.

Í forsetakosningunum árið 2020 hlaut Biden 92% atkvæða í Washington DC.

Búist er við því að að loknum ofur-þriðjudeginum verði Trump aðeins hársbreidd frá því að tryggja sér tilnefningu Repúblikanaflokksins vegna forsetakosninganna.

Að sama skapi er litið á daginn sem síðasta alvöru tækifærið fyrir Haley að velgja Trump undir uggum í forvalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert