Dregur framboð til baka 5 dögum fyrir kosningar

Chris Christie gagnrýndi Donald Trump mikið í framboði sínu.
Chris Christie gagnrýndi Donald Trump mikið í framboði sínu. AFP/Mandel Ngan

Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey, hefur dregið framboð sitt til baka í forvali Repúblikana í baráttunni um forsetatilnefningu flokksins. Þetta staðfesti hann á kosningafundi í New Hampshire-ríki rétt í þessu.

Chris Christie gagnrýndi Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, mikið í framboði sínu en hlaut lítinn hljómgrunn meðal flokksfélaga sinna.

Trump ber enn höfuð og herðar yfir aðra mótframbjóðendur í fylgiskönnunum en Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínuríkis, hefur þó sótt í sig veðrið síðustu vikur.

ABC greinir frá.

Trump með mikið forskot

Trump mælist á landsvísu með rúmlega 62% fylgi í forvali Repúblikana samkvæmt Real Clear Politics og er með rétt rúmlega 50% forskot á Nikki Haley og Ron DeSantis, ríkisstjóra Flórída. Í ríkjunum sem kosið verður fyrst í í forvalinu er munurinn þó minni.

Forval Repúblikana byrjar 15. Janúar í Iowa-ríki og 23. janúar er kosið í New Hampshire.

Spurningin er núna hvert fylgi Christie fer en í New Hampshire, annað ríkið sem Repúblikanar kjósa í, hefur Christie mælst með um 12% fylgi.

Í því ríki er Donald Trump með rúmlega 13% forskot á Haley. Bæði Christie og Haley eru frjálslyndari en frambjóðendur eins og Donald Trump og Ron DeSantis og því líkur á því að fylgi Christie fari að hluta til Nikki Haley.

Í kvöld takast Nikki Haley og Ron DeSantis á í kappræðum hjá CNN en Donald Trump hefur hingað til ekki mætt í kappræður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert