Aung San Suu Kyi í hers höndum en hefur það fínt

Aung San Suu Kyi.
Aung San Suu Kyi. AFP

Fyrrum forsætisráðherra Mjanmar, Aung San Suu Kyi, sem steypt var af stóli í valdaráni mjanmarska hersins fyrr á árinu, hefur það ágætt í fangavist sem hún er látin sæta. Þetta segir lögfræðingateymi hennar í tilkynningu í sama mund og mjanmarski herinn sætir gagnrýni fyrir meðferð sína á mótmælendum í landinu.

Hundruð mótmælenda hafa enda látist í landinu síðan valdaránið var gert 1. febrúar síðastliðinn. Daglegir mótmælafundir eru haldnir í landinu þar sem krafist er að lýðræðislega kjörin stjórn Aung San Suu Kyi taki aftur við völdum af hernum.

Ofbeldi herstjórnarinnar hefur verið fordæmt víða um heim og herstjórnin sætir nú hótunum frá fjölmörgum vígasveitum hinna ýmsu þjóðarbrota í Mjanmar.

Bandarísk yfirvöld hafa kallað heim allt starfslið bandarísku utanríkisþjónustunnar og Japanir, ein helsta bandaþjóð Mjanmar, hefur hætt reglulegum fjárveitingum, sem veittar eru í hjálparskyni.

Einn lögmanna Suu Kyi, Min Min Soe, fékk að ræða við Suu Kyi símleiðis í dag og að hennar sögn virtist hún hafa það gott. Suu Kyi er sökuð um hina ýmsu spillingarglæpi, sem gætu komið henni í fangelsi eða þá meinað henni þátttöku í stjórnmálastarfi, verði hún fundin sek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert