Mótmæla stjórnvöldum í Armeníu: „HÚ!“

Fjöldamótmæli gegn armenskum stjórnvöldum hafa nú staðið yfir í sjö daga í höfuðborginni Jerevan. Mótmælendur eru ósáttir við að forsetinn fyrrverandi Serzh Sarkisian hafi verið kjörinn forsætisráðherra af þinginu. Óeirðalögregla hefur handtekið tugi mótmælenda í dag, en nokkuð hefur dregið úr fjölda mótmælenda í vikunni.

Myndskeiðið sem fylgir fréttinni er tekið af Narek Mkrtchyan fyrir utan utanríkisráðuneyti Armeníu. Það sýnir mótmælendur taka víkingaklappið, sem flestir tengja við íslenska knattspyrnustuðningsmenn.

Það gera Armenar líka, en að sögn Nareks sem kom myndböndum af víkingaklappinu til ritstjórnar mbl.is, eru mótmælin kölluð „íslenska byltingin“ í gríni.

Stjórnarandstæðingum í Armeníu er þó fúlasta alvara. Meira en 2.000 mótmælendur gengu fylktu liði að skrifstofum ríkisstjórnarinnar í dag, þar sem ríkisstjórnarfundur stóð yfir og í gærkvöldi söfnuðust yfir 16.000 manns saman á Lýðveldistorginu í Jerevan, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Stjórnarandstæðingur tekinn höndum af grímuklæddum óeirðalögreglumönnum í Jerevan í dag.
Stjórnarandstæðingur tekinn höndum af grímuklæddum óeirðalögreglumönnum í Jerevan í dag. AFP

Nokkuð hefur þó dregið úr þátttöku í mótmælunum sem hófust síðasta föstudag, en flestir komu saman á þriðjudagskvöld, eða yfir 40.000 manns. Einnig hefur verið mótmælt í borgunum Gyumri og Vanadzor, sem eru fjölmennustu borgirnar í Armeníu á eftir Yerevan.

Mótmælin hafa verið nokkuð hörð, en í dag reyndu mörghundruð mótmælendur að loka innganginum að húsakynnum ríkisstjórnarinnar. Þá blandaði óeirðalögregla sér í leikinn, handtók tugi mótmælenda og færði þá í fangageymslur.

Mótmælin beinast gegn forsætisráðherranum Sarkasian.
Mótmælin beinast gegn forsætisráðherranum Sarkasian. AFP

Á mánudag þurftu 46 manns að leita sér læknishjálpar eftir að lögregla notaði hvellsprengjur gegn mótmælendum sem reyndu að komast í gegnum gaddavírsgirðingar sem reistar höfðu verið fyrir utan þinghúsið í Jerevan.

Völdin færðust til og Sarkasian færðist með

Stjórnarskrárbreyting var gerð í Armeníu árið 2015, sem fól í sér að nokkuð mikil völd færðust frá forsetaembættinu yfir til þingsins, sem kýs sér síðan forsætisráðherra.

Serzh Sarkisian hafði verið forseti í 10 ár áður en þingið kaus hann til þess að gegna embætti forsætisráðherra á dögunum.

16.000 manns komu saman á Lýðveldistorginu í Jerevan í gærkvöldi.
16.000 manns komu saman á Lýðveldistorginu í Jerevan í gærkvöldi. AFP

Því er æðsta valdastaða ríkisins enn í höndum sama mannsins, sem hafði áður lofað því að gefa ekki kost á sér í embætti forsætisráðherra, ef að stjórnarskrárbreytingarnar yrðu innleiddar.

Þetta fellir stjórnarandstaðan sig ekki við og stjórnarandstöðuleiðtoginn Nikol Pashinyan leiddi mótmælagönguna í dag.

Serzh Sarkisian forsætisráðherra Armeníu í þingsal á þriðjudag.
Serzh Sarkisian forsætisráðherra Armeníu í þingsal á þriðjudag. AFP

„Serzh Sarkisian.. við komum hingað til að segja þér að fólkið hatar þig!“ segir AFP að Pashinyan hafi öskrað fyrir utan skrifstofur ríkisstjórnarinnar í dag.

Blóðug átök blossuðu upp er Sarkisian var fyrst kjörinn forseti árið 2008. Þá létust tíu manns og hundruð slösuðust er stjórnarandstæðingum og lögreglu lenti saman í kjölfar kosninganna.

Attachment: "Víkingaklapp í Yerevan" nr. 10656



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert