Umdeild frelsishetja í fjötrum hersins

Kosningabarátta Roberts Mugabe er hafin en hann situr nú í …
Kosningabarátta Roberts Mugabe er hafin en hann situr nú í stofufangelsi. AFP

Hinn 93 ára gamli Robert Mugabe, elsti þjóðhöfðingi heims, barðist fyrir sjálfstæði Simbabve undan nýlenduherrunum í Bretlandi og hafði sigur árið 1980. Í kjölfarið tók hann við sem leiðtogi landsins og hefur ríkt þar allar götur síðan þar til herinn hneppti hann í stofufangelsi fyrir nokkrum dögum. Hann var frelsishetja þjóðar sinnar en á síðari árum hefur hann þótt sýna miklar tilhneigingar til einræðis og er af mörgum álitinn kúga landa sína.

Mugabe sást í fyrsta skipti opinberlega í dag við útskriftarathöfn í höfuðborginni Harare. Herinn greip til sinna ráða í kjölfar þess að Mugabe rak varaforsetann Emmerson Mnangagwa frá völdum og gaf í skyn að eiginkona sín, Grace, væri betur til þess fallin að taka við af sér og leiða Zanu-flokkinn. Talið er að herforingjar vilji að Mnangagwa taki við stjórnartaumunum í landinu. Grace Mugabe er 52 ára, 41 ári yngri en eiginmaðurinn. Þau kynntust á níunda áratug síðustu aldar þegar hún starfaði sem ritari í forsetabústaðnum. Þau tóku upp samband á meðan Mugabe var enn kvæntur fyrri eiginkonu sinni en hún lést 1992. Grace og Robert giftu sig árið 1996 og eiga þrjú börn.

Bæði sæta hjónin refsiaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal ferðabanni.

Hinn litríki forseti Robert Mugabe er forsetaefni flokks síns fyrir …
Hinn litríki forseti Robert Mugabe er forsetaefni flokks síns fyrir komandi kosningar. Hann hefur ríkt í yfir 30 ár. AFP

Blóðug sjálfstæðisbarátta

Saga Simbabve hefur verið þyrnum stráð. Landið er landlukt í suðurhluta Afríku og á landamæri að Sambíu, Mósambík, Botsvana og Suður-Afríku. Árið 1889 stofnaði Cecil Rhodes þar nýlendu í umboði breskra stjórnvalda. Rhodes hafði verið í hópi evrópskra viðskiptamanna sem könnuðu svæðið. Þeir settust fyrst að þar sem höfuðborginni Harare er nú. Í kjölfarið var landið kallað Suður-Ródesía. Sett voru lög í landinu sem heftu mjög aðgengi svartra að landi og margir þeirra neyddust til að gerast verkamenn á býlum hvítra.

Árið 1965 lýsti forsætisráðherrann Ian Smith einhliða yfir sjálfstæði frá Bretum. Stjórn hans var aðeins skipuð hvítum og í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingarinnar einangraðist landið frá alþjóðasamfélaginu.  Á næstu árum hófst grimmilegt borgarastríð þar sem svartir íbúar landsins reyndu að koma ríkisstjórninni frá og ná völdum. Það tókst loks árið 1980 og í kjölfarið hófst valdatíð Roberts Mugabe. Árið 1987 breytti hann stjórnarskránni og varð forseti.

Simbabve var áður matarkista svæðisins en frá aldamótum hafa þurrkar sett strik í þann reikning sem og aðgerðir sem miðuðu að því að gera hvíta landeigendur brottræka af jörðum sínum. Í kjölfarið dró verulega úr framleiðslu.

Efnahagur landsins varð þar af leiðandi fyrir miklu höggi og óðaverðbólga og fátækt hefur ríkt síðustu ár. Atvinnuleysi er útbreitt og fjölmargir hafa flúið til nágrannaríkisins Suður-Afríku í leit að vinnu.

Kennarinn sem helgaði sig baráttunni

Mugabe fæddist árið 1924. Hann hlaut menntun og gerðist kennari áður en hann helgaði sig sjálfstæðisbaráttunni. Hann hóf fljótt að leiða þá baráttu gegn stjórn hvítra sem voru í miklum minnihluta landsmanna. Hann sat m.a. í ellefu ár í fangelsi þar til hann varð fyrsti forsætisráðherra landsins eftir sjálfstæðið árið 1980.

Matarskortur hefur ríkt í Simbabve síðustu ár.
Matarskortur hefur ríkt í Simbabve síðustu ár. AFP

Í desember árið 2015 var hann enn á ný valinn til að vera forsetaefni flokks síns fyrir kosningarnar á næsta ári. Fjölmiðlar héldu þó áfram að velta fyrir sér mögulegum arftaka hans. Þeir eru þó flestir hliðhollir ríkisstjórninni og þurfa blaðamenn samþykki sérstakrar nefndar til að starfa í landinu. Þeir hafa þurft að þola ritskoðun og ofsóknir.

Enn á ný er Simbabve nú í sviðsljósinu vegna pólitískrar ólgu. Það kom mörgum á óvart að Mugabe skyldi birtast við útskriftina í dag þar sem hann  hélt ræðu undir dynjandi lófaklappi. Eiginkonan Grace var hvergi sjáanleg. Herforingjarnir sem hnepptu Mugabe í stofufangelsi segjast nú eiga í viðræðum við hann og að niðurstaða þeirra verði opinberuð svo fljótt sem auðið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert