Ástkona Morales dæmd í fangelsi

Evo Morales.
Evo Morales. AFP

Fyrrverandi ástkona Evo Morales, forseta Bólivíu, hefur verið dæmd í tíu ára fangelsi fyrir spillingu. Gabriela Zapata var einnig sökuð um að hafa leynt syni þeirra Morales frá honum, en komist var að því í málinu að hún hefði ekki sýnt fram á að þau ættu son saman.

Zapata var dæmd fyrir að hafa nýtt tengsl sín við forsetann til að tryggja verktakafyrirtæki sínu, CAMC, samninga fyrir stór verkefni á vegum ríkisins. Fyrirtækið fékk fjöl­marga verk­samn­inga á veg­um rík­is­ins og eru þeir metn­ir á hálf­an millj­arð Banda­ríkja­dala. Talið var að Morales væri ekki ábyrgur fyrir brotunum. 

Þau Morales hófu ástarsamband árið 2005, þegar hún var 18 ára, en Morales sem er 57 ára segir að því hafi lokið tveimur árum síðar. 

Engar sannanir fyrir tilvist sonarins

Á síðasta ári fór Morales fram á að hitta son sinn eftir að ættingi Zapata sagði að drengurinn væri á lífi og byggi á leynilegum stað í Bólivíu. Morales var viss um að sonur sinn hefði látist sem ungabarn eftir veikindi. 

Engar sannanir voru hins vegar fyrir því að Morales ætti son með Zapata og staðfesti dómari það í málinu. Hafði Morales höfðað dómsmál á hendur Zapata þar sem hún var beðin um að færa sönnur á tilvist barnsins. Einu sönnunargögn Zapata í málinu voru fjórar myndir af barninu en að sögn dómarans voru þær hver af sínu barninu. 

Zapata breytti sögunni á endanum og sagði drenginn hafa látist árið 2009. Fimm voru handteknir fyrir að hjálpa henni að halda lyginni um tilvist drengsins áfram með því að fá önnur börn til að sitja fyrir á myndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert