Park svipt forsetaembætti

Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu hefur staðfest ákvörðun þingsins um að svipta forseta landsins, Park Geun-hye, embætti en hún er til rannsóknar í tengslum við spillingarmál. Tveir mótmælendur létust í morgun þegar ákvörðun dómsins var mótmælt fyrir utan dómshúsið.

Stuðningsmenn Park Geun-hye mótmæltu fyrir utan dómshúsið.
Stuðningsmenn Park Geun-hye mótmæltu fyrir utan dómshúsið. AFP

Park verður því fyrsti forseti landsins sem er svipt embætti frá því lýðræði var komið á í Suður-Kóreu. Dómarar við stjórnlagadómstólinn samþykktu einróma að svipta hana embætti vegna fjármálahneykslis sem tengist náinni vinkonu hennar, Choi Soon-sil. Með þessu missir Park friðhelgi og á yfir höfði sér ákæru fyrir saknæmt athæfi. 

Saksóknari í Suður-Kóreu hefur ákært Lee Jae-yong, sem kalla má hinn raunverulega stjórnanda Samsung, fyrir mútur, fjárdrátt og aðra glæpi í tengslum við spillingarmálið.

Skömmu áður en fréttist af ákærunni á hendur hinum 48 ára varaformanni stjórnar Samsung Electronics og fjórum öðrum stjórnendum fyrirtækisins hafði Samsung – sem fæst við allt frá því að þróa nýjustu tækni til fjármálaþjónustu – greint frá því að til stæði að leggja niður stefnumótunardeild fyrirtækisins. Deildin hefur verið í rannsókn fyrir að reyna að hafa áhrif á fólk úr heimi stjórnmálanna.

Saksóknarar gefa Lee að sök að hafa mútað forseta Suður-Kóreu, Park Geun-hye, og trúnaðarkonu hennar, Choi Soon-sil, með greiðslum að fjárhæð samtals 43 milljarða wona (jafnvirði 38 milljóna dala eða 4 milljarða króna) í skiptum fyrir pólitíska greiða sem myndu liðka fyrir framgangi Lee og auka ítök hans hjá mikilvægum fyrirtækjum innan samsteypunnar.

Samsung heldur því fram að Lee sé fórnarlambið í málinu og að Park hafi þvingað hann til að gefa henni féð. Á mánudag sagði Park að ekki væri um mútur að ræða og að fyrirtæki greiddu framlög af þessum toga í þágu almannahagsmuna.

Þrátt fyrir að í Suður-Kóreu sé refsing fyrir mútugreiðslur og mútuþægni allt að lífstíðarfangelsi hafa stjórnendur á meðal stærstu fyrirtækja landsins verið sakfelldir í mútumálum og síðan snúið aftur til starfa eftir að hafa verið náðaðir af forsetanum.

Að sögn saksóknara er arftakinn hjá Samsung líka sakaður um að fela eignir erlendis, leyna hagnaði af meintum ólöglegum viðskiptum og að hafa logið eiðsvarinn þegar hann veitti þinginu skýrslu um aðkomu sína að mútumálinu. Lee neitar öllum sökum.

Lee hefur áður gengist við því að hafa látið fé af hendi rakna til styrktarsjóða Choi en hann þvertekur fyrir að framlögin hafi verið gerð í skiptum fyrir pólitíska greiða.

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert